145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum með spá um það hversu margir muni bætast við. Samkvæmt gögnum er þar um að ræða um 18.000 aðila sem munu bætast við þá rúmlega 35.000 sem hafa verið í kerfinu sem er gríðarlegur fjöldi þótt það séu ekki jafn margir og við spáðum á sínum tíma. Þar var horft til þess hversu margir legðu til hliðar í séreignarsparnað. Svo gerðum við ráð fyrir því, vegna þess mikla skattahagræðis sem er af því að taka sparnaðinn út og ráðstafa honum inn á höfuðstól, að enn hærra hlutfall en raun ber vitni mundi gera það. Kannski hefur verið þörf fyrir enn meiri kynningu á kostum þess að gera það vegna þess að það er alveg ljóst að tugir þúsunda fjölskyldna hafa farið á mis við gríðarlega mikinn skattafslátt með því að nýta sér ekki þær leiðir sem hafa verið í boði undanfarin ár. Það er hlutverk (Forseti hringir.) okkar að halda öllum vel upplýstum um rétt sinn til að enginn fari á mis við slíkar ráðstafanir.