145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:50]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Líkt og þingmennirnir sem spurðu hæstv. ráðherra áðan hef ég dálitlar áhyggjur af tekjudreifingunni og hvernig þessi stuðningur muni skiptast. Það er nokkuð ljóst að ungt fólk er tekjulægra en meðallaun í landinu þar sem það er auðvitað að byrja sinn starfsferil. Í því samhengi langaði mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif hann teldi að breytingin á Lánasjóði íslenskra námsmanna hefði og sú tekjutenging sem felst í frumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu sem mun væntanlega gera nemendum erfiðara fyrir að vinna með námi, þar af leiðandi seinkar komu ungs fólks inn á markaðinn. Mun þetta ekki hafa neikvæð áhrif?

Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort skoðuð hafi verið áhrif þessarar aðgerðar á tekjur sveitarfélaga og hvort það hafi verið samtal við samtök sveitarfélaga um hvernig það verði bætt.

Síðan hef ég (Forseti hringir.) áhyggjur af því að hér sé enn eitt inngripið, sértækt inngrip í fasteignamarkaðinn þar sem skattgreiðendur í gegnum ríkið hafa áhrif á fasteignamarkaðinn til hækkunar, því miður, eins og við höfum þekkt og velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af því sömuleiðis.