145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins í framsöguræðu minni yfir fasteignamarkaðinn og áhrif á hann. Við teljum að það verði meiri hliðrun á fasteignamarkaðnum, heildareftirspurnin muni lítið breytast en fleiri eigi kost á að kaupa eigið húsnæði og fara úr leiguhúsnæði en hingað til hefur gilt. Það er sjálfsagt og mjög eðlilegt að menn velti sér samspili af þessum leiðum og þeim hugmyndum sem birtast í frumvarpi til laga um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég tek eftir því að stúdentar virðast almennt taka því frumvarpi vel og það er svo sem ekki ástæða til að fela það neitt að samantekið eru bæði þessi frumvörp frekar vinnuhvetjandi en nokkuð annað. Það er hvati í þessu frumvarpi til þess að auka tekjur sínar. Geri menn það getur stuðningurinn, styrkurinn sem er greiddur beint út samkvæmt hinu frumvarpinu, mögulega dugað til að brúa bilið. Ég skal ekki segja, það þarf auðvitað að fara mjög vandlega yfir (Forseti hringir.) hvort tveggja og mér finnst sjálfsagt að það sé gert í nefndarstörfum.