145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum lagt skyldur á herðar fjármálafyrirtækjunum að veita góðar upplýsingar. Ég veit ekki annað en að öll fjármálafyrirtækin hafi metnað til þess að gefa sem best yfirlit. Við þekkjum samt sem áður dæmi þess úr fortíðinni, kannski bara frá nýliðnum árum eða fyrirhrunsárunum, að það eru mjög margir sem muna ekki eftir eða kannast ekki við yfir höfuð að hafa fengið leiðbeiningar um það hvernig endurgreiðsluferillinn yrði. En þetta er nú komið meira eða minna allt saman inn í lög að menn eigi rétt á að sjá hvernig mánaðarleg afborgun muni þróast yfir lánstímann miðað við gefnar forsendur. Það verður áfram mjög mikilvægt að vel sé hlúð að þeim málum.

Ég ætla samt að segja að mér finnst ekki síður mikilvægt að við ræðum, um leið og við förum vel yfir þessi mál, um leiðir til þess að halda verðbólgunni einfaldlega niðri. Þá munu allir geta andað aðeins léttar. (Forseti hringir.) Það er í raun og veru langstærsta hagsmunamálið og miklu stærra en þetta mál eða aðrar aðgerðir á húsnæðismarkaði. Ef okkur tækist að skapa aðstæður til að tryggja lága verðbólgu yfir langan tíma þá værum við að vinna öllum (Forseti hringir.) mikið gagn.