145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:14]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að hv. þingmaður sem hér talaði lýsti þeirri skoðun sinni að þetta frumvarp um aðstoð við kaupendur fyrstu íbúðar væri ekki til bóta. Hann fann því í rauninni allt til foráttu. Það kom mér svolítið á óvart að hann gæti ekki fundið einhverja glætu í þessu.

Hann talaði mikið um vaxtabótakerfið og vill bæta í það, kerfi sem í raun hvetur til skulda. Hér er lagt til kerfi sem hvetur til sparnaðar. Ég er ekki sammála því sem hér var haldið fram, að með þessum tillögum sé verið að flytja fé frá einum til annars, heldur þvert á móti lýtur þetta frumvarp einmitt að því að unga fólkið, gefum okkur að þetta sé að mestu leyti ungt fólk, sem hér er verið að aðstoða við að kaupa sína fyrstu íbúð noti sitt eigið fé, sitt eigið sjálfsaflafé, til þess arna en þurfi ekki að vera upp á skattgreiðendur komið í gegnum vaxtabótakerfið.

Rót að þeim vanda sem blasir við ungu fólki í dag er að mínu mati, og ég vildi gjarnan heyra álit hv. þingmanns á því, skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, skortur á nýju húsnæði. Ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð stendur í gríðarlegri samkeppni við ferðaþjónustuna, leigufélög og leigumarkaðinn og allt þetta hefur valdið hækkun á húsnæði. Mig langaði að heyra hvort hv. þingmaður hefði ekki einhverja skoðun á framboðshliðinni í Reykjavík hvar hans flokkur stýrir úthlutun lóða um þessar mundir.