145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög athyglisvert að andsvar hv. þingmanns skuli í engu snúa að efnisatriðum og þeirri gagnrýni á þetta frumvarp sem ég setti fram. Það finnst mér athyglisverðast. Það er ekki svarað einu gagnrýnisatriði, ekki um áhrifin á fjármálastöðugleika, ekki áhrifin á það að vera að búa til heila kynslóð sem ekki mun eiga varasjóð. Ekkert var rætt um efnisatriði mála, það er bara komið með gamaldags kjaftæði um framboð á lóðum í Reykjavík og reynt að snúa málum upp í einhvern borðtennisleik sem mér finnst þetta mál allt of mikilvægt til að verðskulda. Við getum tekið sérstaka umræðu um lóðaframboð í Reykjavík ef hv. þingmaður vill gera það, það er enginn lóðaskortur í Reykjavík.

Það sem er hins vegar ranglega haldið fram af hv. þingmanni er að hér sé verið að búa til leið til þess fyrst og fremst að láta fólk nýta sjálfsaflafé til að lækka skuldir. Það er verið að gera það en það er verið að veita ríkisstyrki til þess og þeir sem leggja mest í að lækka skuldir, sem þurfa þá væntanlega ekki að stofna til skuldanna hvort eð er, fá mestan ríkisstyrkinn. Hvernig í ósköpunum er hægt að finna réttlæti í því?

Húsnæðisskuldir eru ekki áskapaðar. Húsnæðisskuldir eru afleiðing skorts á fjármagni. Þeir sem eru með 1.400.000 kr. í mánaðarlaun hafa væntanlega betri tök á því að greiða niður skuldir hvort eð er og þurfa ekki til þess sérstakan ríkisstyrk. Hins vegar er til fólk sem á mjög erfitt með að kaupa húsnæði og það fólk þarf til þess ríkisstyrk. Þannig hefur samstaðan verið á Íslandi áratugum saman. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að hætta þeirri samstöðu. Hann er á móti almennum vaxtabótum. Hann er á móti almennum stuðningi við íbúðarkaupendur. Hann vill sértækan stuðning og mestan við þá sem minnst þurfa á að halda.