145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja að segja að mér þykir það jákvætt í sjálfu sér að við séum að ræða ráðstafanir til þess að styðja við ungt fólk á fasteignamarkaði þar sem hefur verið mikill vandi. Ég vil nefna að þrátt fyrir yfirlýsingar um annað þá benda þau gögn sem hafa verið lögð fram í þinginu um leiðréttinguna svokölluðu til að hún hafi síst nýst ungu fólki og síst nýst tekjulágum. Ef við skoðum tölurnar á bak við þá aðgerð, sem átti að vera aðalaðgerð þessarar ríkisstjórnar til stuðnings við fjölskyldurnar í landinu, þá voru það 56 ára og eldri sem fengu samtals 26,4 milljarða af þeim 70 milljörðum sem varið var til leiðréttingarinnar. Þeir sem voru undir 35 ára aldri fengu 4,4 milljarða. Þar sömuleiðis voru það tekjuhæstu hóparnir sem fengu tæp 30% af upphæð leiðréttingarinnar, en tekjulægstu 20% fengu 13%. Það liggur ekki enn þá fyrir eignastaða þeirra sem hlutu leiðréttinguna, um það hefur legið inni skýrslubeiðni síðan í október í fyrra og enn ekki komin svör við þeim fyrirspurnum sem þar eru lagðar fram.

Það er ekki nema von að maður spyrji eftir að þessi aðgerð var keyrð í gegn hver áhrifin verði á ólíka tekjuhópa af þeirri aðgerð sem nú er kynnt. Um það var líka spurt þegar við ræddum leiðréttinguna og því er enn haldið fram af sumum hv. þingmönnum stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherrum að hún hafi í raun gagnast mest ungum og tekjulágum þvert á gögn sem þessi sama ríkisstjórn hefur lagt fram, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram um dreifingu leiðréttingarinnar. En það er kannski ekki nema von að ríkisstjórnin telji þá rétt að aðhafast eitthvað fyrir unga fólkið.

Ég ætla að velta upp nokkrum spurningum sem mér finnst mikilvægt að verði skoðaðar. Ég kom aðeins inn á það áðan í andsvari við hæstv. ráðherra og það varðar tekjudreifinguna. Það liggur í augum uppi að það er ágreiningur í þingsal um grundvallarhugsunina á bak við það að veita skattafslátt af opinberu fé sem miðast í raun og veru við tekjur þess sem um sækir, því að þeir sem mestar hafa tekjurnar geta lagt mest til hliðar og fá þar af leiðandi mestan skattafslátt. Það þarf engan geimvísindamann til að reikna það út. En það er samt mikilvægt að við reynum að átta okkur á staðreyndunum með því að hafa þá greiningu undir. Það er líka mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvort þetta mun þá gagnast þeim hópi sem því er ætlað að gagnast. Það er búið að setja fram að þetta gæti verið að umfangi um 50 milljarðar. En það hefur líka verið bent á að umfang séreignarsparnaðarhlutans í leiðréttingunni sem kynnt var fyrr á þessu kjörtímabili var talsvert minni en menn áttu von á. Ég velti því upp þegar þetta er til umræðu hvernig það gagnast hópnum sem það á að þjóna þegar við skoðum t.d. ráðstöfunartekjur fólks á aldrinum 25–34 ára. Hæstv. ráðherra vísaði áðan í meðaltekjur í samfélaginu. Þegar við förum á vef Hagstofunnar og skoðum ráðstöfunartekjur þessa hóps, 25–34 ára, sem væntanlega er sá sem mundi vilja nýta sér þetta úrræði, þá er miðgildi ráðstöfunartekna undir 300 þús. kr. Í heildartekjum er það u.þ.b. 375 þús. kr. Hversu langan tíma mun það taka einstaklinga með þær tekjur að safna sér upp í útborgun á íbúð með þessari aðferð? Mun hópurinn yfir höfuð telja sig hafa efni á því að vera að leggja fyrir í séreignarsparnað?

Þriðja spurningin sem væri áhugavert að velta upp, og ég veit ekki svarið við, er hvort ríkisstjórnin kallaði til fulltrúa ungs fólks þegar hún var að undirbúa þessa aðgerð fyrir ungt fólk. Það kemur a.m.k. ekki fram í greinargerðinni að ungt fólk hafi verið haft með í ráðum. Ég er ekki ungt fólk og hæstv. ráðherra er ekki ungt fólk. En (Gripið fram í.) þegar við spyrjum og hlustum eftir því hvað ungt fólk leggur áherslu á í dag er það ekki síður að fá viðunandi framboð á leiguhúsnæði, af því ungt fólk núna leggur meira upp úr hreyfanleika í lífi sínu en ungt fólk fyrir 30 árum. Ungt fólk í dag leggur mjög mikið upp úr því að geta tekið sig upp, flutt annað, spreytt sig á nýjum tækifærum og í raun og veru má segja að öll okkar stefnumótun í gegnum árin hafi miðað að því að auka möguleika til þess að vera hreyfanlegur, hvort sem er í norrænu samstarfi eða alþjóðasamstarfi.

Það má líka spyrja sig hvort þetta sé óskaúrræðið fyrir ungt fólk, hvort það sé ekki fremur að sækjast eftir eðlilegum leigumarkaði, a.m.k. til að byrja með. Ég tek fram að mér finnst afar jákvætt það sem hefur verið unnið á þessu þingi í húsnæðismálum. Vonandi verður það til þess að við sjáum fram á aukið framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði þar sem fólk ver ekki allt að helmingi og jafnvel meira en helmingi ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað, sem er algjörlega óásættanlegt hlutfall. Hvernig á ungt fólk sem er á leigumarkaði í dag, eins og hann lítur út, að hafa efni á því að leggja til hliðar í séreignarsparnað? Í raun og veru snýst þessi leið fyrst og fremst um að fólk leggi fyrir af eigin tekjum, sem ekki eru sérstaklega háar samkvæmt þeim gögnum sem við getum aflað okkur, til þess að safna fyrir útborgun á sama tíma og það er á óviðráðanlegum leigumarkaði, nema það búi enn þá í foreldrahúsum sem kannski verður því miður hlutskipti margra án þess að þeir óski þess sérstaklega.

Það sem er líka umhugsunarefni er að þessar aðgerðir samanlagðar, leiðréttingin, séreignarsparnaðarleiðin sem þá var kynnt og svo þessi nýja leið ríkisstjórnarinnar — þetta er auðvitað veruleg stefnubreyting á því hvernig hið opinbera styður við húsnæðismál og húsnæðiskost fólksins í landinu. Ef við á annað borð teljum að eðlilegt sé að hið opinbera styðji við húsnæði, húsnæðismál og styðji fólk við að koma sér þaki yfir höfuðið, hvort sem það gerir það gegnum leigu eða í gegnum eigu, þá er það svo sannarlega umhugsunarefni að hér hafi verið teknar gríðarlega stefnumótandi ákvarðanir. Vaxtabætur hafa verið skertar á þessu kjörtímabili — og skerðingar vaxtabótanna fyrst og fremst verið framkvæmdar með því að hækka skerðingarhlutfallið — og nemur uppsöfnuð skerðing hátt í 60 milljörðum kr. á núvirði. Uppsafnaðar skerðingar nema 57,7 milljörðum kr. Það hefur verið dregið markvisst úr stuðningi við fjölskyldurnar í landinu í gegnum vaxtabótakerfið og barnabótakerfið en í staðinn farið í flatar aðgerðir, hvort sem er í gegnum leiðréttinguna eða þessa aðgerð, sem gagnast fyrst og fremst hinum tekjuhærri. Það er stór stefnubreyting að hið opinbera nýti sameiginlega sjóði landsmanna til þess að styðja fyrst og fremst við tekjuhærri hópana.

Það er mín skoðun að hið opinbera eigi einmitt að nýta skattkerfið og nýta það í stefnumótun sinni til að jafna byrðarnar, að jafna hlut fólks, að hlutverk hins opinbera eigi að vera að tryggja öllum tækifæri, að jafna aðstæður fólks sem eru í störfum sem gefa af sér ólíkar tekjur en eru öll t.d. mjög mikilvæg, að stuðningur hins opinbera eigi að miðast við það að hjálpa og styðja við þá sem eru í þeirri stöðu að hafa lægri tekjur en ekki að styðja sérstaklega við þá sem hafa hærri tekjur, eins og gæti orðið raunin með þetta úrræði þrátt fyrir þakið sem sett er á það.

Ég vil líka setja þetta í samhengi við það sem áður hefur verið gert þegar við skoðum þann kostnað sem fellur á ríki og sveitarfélög. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú lagt mat á óbættan kostnað sveitarfélaganna vegna séreignarsparnaðarúrræða ríkisstjórnarinnar, þess sem hér er kynnt og þess sem þegar hefur verið framkvæmt. Alls eru þetta 15 milljarðar í töpuðu útsvari. Þá er ég ekki að tala um framtíðarávöxtun og tap á framtíðarávöxtun þessara tekna heldur beint tekjutap. Það kom fram í tengslum við leiðréttinguna að þetta tap sveitarfélaganna yrði bætt, sem hefur ekki verið gert. Hlutfallslega er það mest í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, sveitarfélögunum í kringum höfuðborgina, en bitnar líka illilega á ýmsum fleirum sveitarfélögum. Þetta úrræði sérstaklega, þetta fyrsta fasteignaúrræði, miðað við að það verði nýtt, sem þó hafa verið settar fram efasemdir um, eins og ég nefndi áðan, að verði nýtt að fullu, ekki síst vegna þess að hér er ekki endilega miðað við rauntekjur ungs fólks — þetta úrræði samkvæmt mati Sambands íslenskra sveitarfélaga gæti þýtt 7,2 milljarða tekjutap á tíu árum. Þá miða ég bara við þetta beina tekjutap.

Það sem við sjáum hér er úrræði sem vissulega hvetur til sparnaðar, sem er jákvætt. Ég spyr: Má ekki útfæra slíkt úrræði þannig að það hvetji til sparnaðar hjá öllum en stuðningur hins opinbera sé jafn í krónum talið óháð tekjum þeirra sem í hlut eiga? Hér er tillaga um úrræði sem við vitum ekki heldur hvernig mun gagnast út frá því sem ég hef sagt um tekjur, en líka út frá áhuga ungs fólks á búsetuformi, sem ég efast um að hafi verið kannaður sérstaklega í kringum þetta úrræði. Það vakti raunar athygli að í kynningu á úrræðinu í Hörpu var fyrst og fremst rætt, og oft rætt, um séreignarstefnuna en ekki fjallað neitt um það hver áhuginn á henni er nákvæmlega í samfélaginu í dag. Hér erum við að tala um úrræði sem dreifist með mjög mismunandi hætti milli mismunandi tekjuhópa, alveg eins og leiðréttingin gerði, úrræði sem snýst um að hið opinbera styrki hina tekjuhærri meira í krónum talið en hina tekjulægri. Á sama tíma horfum við á skerðingar barnabóta og vaxtabóta sem, eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni áðan, hefur ríkt ágætissátt um í samfélaginu. Margir virðast hafa vaknað upp við vondan draum núna þegar vaxtabætur þeirra hafa verið skertar, vaxtabætur sem fólk hefur getað reiknað tiltölulega mikið með, af því skerðingarhlutföllin hafa alls ekki fylgt þróun fasteignaverðs t.d. á höfuðborgarsvæðinu.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að skerða þau kerfi sem fyrir eru til stuðnings fjölskyldunum í landinu en taka á móti opinbert fé og deila því út þannig að hinir tekjuhæstu fái mest. Ég styð það að við styðjum sérstaklega við ungt fólk þegar kemur að því að öðlast húsnæði því að það er raunverulegt vandamál. Það er raunverulegt vandamál sem við getum farið yfir og rætt saman orsakirnar, þá staðreynd að í hruninu stöðvaðist uppbygging á höfuðborgarsvæðinu, svo dæmi sé tekið, þannig að framboð fylgdi ekki eftirspurn, að fasteignaverð hefur farið upp úr öllu valdi svo að mjög erfitt er að komast inn á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, að úti á landi hefur fasteignamat hins vegar ekki fylgt byggingarkostnaði þannig að erfitt er að fá lán til að byggja sér hús og lánin standa ekki undir raunverulegum byggingarkostnaði. Þetta er vandinn sem við horfum á.

Mér er mjög til efs að þessi leið muni virka sem skyldi. Mér er mjög til efs að umfangið verði það sem hér hefur verið boðað. Mér er mjög til efs að hún gagnist þeim sem helst þurfa á henni að halda. Það er stóra málið, fyrir utan það að við horfum upp á kostnað, kostnað ríkis og kostnað sveitarfélaga sem hafa ekki verið höfð með í ráðum og ekki fengið bætt það tap sem þau hafa þegar orðið fyrir. Ég átta mig ekki á því hvað stjórnvöldum gengur til að fara fram í slíku mál að því er virðist, miðað við minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, án alls samráðs við sveitarfélögin í landinu.

Ég hef miklar efasemdir. Ef við lítum svo á að það sé hlutverk hins opinbera að styðja þá sem þurfa á stuðningnum að halda, að jafna tækifærin og jafna kjörin í landinu þá hef ég miklar efasemdir um að þetta úrræði sé rétta lausnin. Jafnvel þótt ég telji jákvætt að stuðla að sparnaði, að styðja við ungt fólk, þá hef ég miklar efasemdir um að þetta úrræði muni þjóna þeim markmiðum. Mér finnst það áhyggjuefni hve rýrar greiningar eru lagðar til grundvallar þegar spurt er um tekjudreifingu, þegar spurt er um áhrifin á stöðu (Forseti hringir.) lífeyrissjóðanna, sem ég hef ekki haft tíma til þess að fara yfir, þegar spurt er um (Forseti hringir.) raunverulegar tekjur ungs fólks. Svörin rýr sem engin.