145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í stefnunni og áætluninni er ekki að finna merki þess að efnahagsstefna stjórnvalda til næstu ára muni treysta efnahagslegan stöðugleika. Skattstefnan mun verða til þess að auka bilið milli ríkra og fátækra, enda hefur ríkisstjórnin horfið frá beitingu tekjuskattsálagningar í jöfnunarskyni um leið og hún ákveður m.a. að leggja ekki auðlegðarskatt á hina ríkari í samfélaginu.

Áform ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisskulda eru veikburða og byggja helst á sölu hlutafjár í viðskiptabönkunum sem á svo að auka getu ríkissjóðs til að byggja upp velferðarkerfið. Engin áætlun er lögð fram ef áformin um söluna ganga ekki eftir. Fullyrðingar fjármálaráðherra um að áætlanir ríkisstjórnarinnar um að þróun opinberra fjármála séu til að styrkja velferðarkerfið og bæta þjónustu þess við landsmenn eiga sér því ekki stoð.

Heilbrigðiskerfið er fjárvana, ekki kemur fram í áætluninni að bæta eigi kjör öryrkja og eldri borgara á komandi árum, dregið er úr félagslegum stöðugleika með því að veikja mikilvæg stuðningskerfi á borð við húsnæðis- og barnabótakerfin, undanhald er í umhverfis- og loftslagsmálum og ríkisstjórnin hefur því sýnilega engin áform um að sinna þessum mikilvægu málum af myndugleik. En umfram allt sjáum við daglega að það er engin samstaða ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) um ríkisfjármálaáætlunina og í raun afar fátt yfirleitt þegar hingað er komið. Hún er umboðslaus. Við vinstri græn getum ekki stutt þessa áætlun.