145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálaáætlun 2017--2021.

740. mál
[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér að leggja upp með fjármálaáætlun og ef hún nær fram að ganga þá verðum við með skuldminnstu þjóðum heims. Hvað þýðir það? Það þýðir að við höfum ráðrúm til að gera betur í þeim málaflokkum sem við viljum gera vel í. Það þýðir sömuleiðis að hér verði stöðugleiki, sem eru bestu fréttirnar fyrir heimilin og almenning í landinu. Síðan verður hver og einn að meta það hversu trúverðugur málflutningur hv. stjórnarandstöðu er í þessum málum. Ég vil vekja athygli á því vegna þess að menn skauta svolítið létt frá þeim skattahækkunum sem hv. stjórnarandstaða boðar. Auðlegðarskatturinn svokallaður sem síðasta ríkisstjórn lofaði að endurnýja ekki, tekið var út hverjir greiddu hann, og þeir sem fóru verst út úr því voru tekjulágir eldri borgarar. Það eru kaldar kveðjur sem eldri (Forseti hringir.) borgarar þessa lands fá frá hv. stjórnarandstöðu.