145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálaáætlun 2017--2021.

740. mál
[14:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að samúð Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sé með auðugasta fólkinu í landinu. Hann leggur lykkju á leið sína í ræðustólinn til þess að fjalla um það hversu bágt það eigi. Þessi ríkisfjármálaáætlun mun hvorki byggja upp né styrkja velferðarsamfélagið á Íslandi. Ég virði hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að sitja hjá við hana. Kosturinn við hana er einn; hún verður ákaflega skammlíf því að sú lagaskylda hvílir nú á nýrri ríkisstjórn að leggja fram sína eigin áætlun strax í byrjun nýs kjörtímabils. Það er líka það eina góða sem ég sé við þetta plagg í raun og veru. Lélegust er þessi áætlun og óraunhæfust þegar kemur að uppbyggingu innviða samfélagsins. Hún er algerlega ósjálfbær hvað það varðar að halda við og byggja upp vegakerfið og aðra innviði í landinu. Þar er verið að mynda risavaxna skuld við framtíðina. Þeir menn sem mest tala um ábyrgð ættu að hugleiða það að ein aðferðin til að (Forseti hringir.) búa til skuld er að svelta og vanrækja þannig fjárfestingar (Forseti hringir.) í innviðum samfélagsins að það komi komandi kynslóðum í koll.