145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálaáætlun 2017--2021.

740. mál
[14:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem er gleðilegt við langtímaáætlunina er að við höfum einmitt stóraukið svigrúm til þess að bæta í fjárfestingu innviða. Vildi ég geta gert enn meira? Já, ég mundi sjálfsagt vilja gera enn meira, t.d. í samgöngumálum og vonandi skapast aðstæður til að gera enn meira þar. Við erum að setja 30 milljarða í heilbrigðiskerfið umfram launa- og verðlagsbreytingar sem fylgja öllum þeim starfsmannafjölda sem þar er, 30 milljarða. Við erum í fyrsta skipti að sýna fram á það með tölum hvernig á að borga fyrir nýjan spítala, kaupa nýjar þyrlur, kaupa Herjólf o.s.frv. og skila ríkissjóði með 25–35 milljarða afgangi á hverju einasta ári og greiða niður skuldir. Menn geta komið hingað og sagt: Við viljum eyða meiri peningum, við viljum að meiru verði eytt úr ríkissjóði. Gott og vel. En á hvers kostnað á það að vera? Á það að vera á kostnað umsvifa annars staðar í hagkerfinu eða er mönnum bara sama um verðbólguna? Ætla menn að ná sátt við vinnumarkaðinn um að draga úr launagreiðslum vegna þess (Forseti hringir.) að ríkið ætli að taka meira til sín? Það verður að vera eitthvert heildarsamhengi í þessu. Það verður að vera heildarsamhengi. (Forseti hringir.) Um það fjallar fjármálastefnan sem er ábyrg. Það er bjart fram undan. (Forseti hringir.) Við vildum (Forseti hringir.) eflaust öll hafa aðeins meira, en það (Forseti hringir.) verður þá að vera raunsæi í þeim hugmyndum.