145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:42]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að undra mig á því að þetta frumvarp sé að koma fram fyrst núna þegar örfáir dagar eru eftir af starfinu. Þarna erum við að tala um gífurlega kerfisbreytingu sem mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á það hvernig neysla er í samfélaginu og hvort fólk muni reyna að eignast hluti; þetta er náttúrlega hluti af séreignarpakka hæstv. ríkisstjórnar. Ég sé einfaldlega ekki hvernig þetta á að gagnast ungu fólki. Nú er ég ung, ég er 26 ára gömul, ég er tiltölulega nýkomin úr námi og er í þeirri stöðu að ég er komin á þing þannig að ég er á þingfararkaupi. Þetta virðist samt ekki geta komið sér vel fyrir mig þrátt fyrir að ég sé á svona háum launum einfaldlega út af því að ég hef aldrei haft tækifæri til að spara fyrir útborgun. Það er nefnilega þannig með þá kynslóð sem er að komast á legg ef má segja sem svo, er að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu, að hún var að miklu leyti til fórnarlömb hrunsins. Ég held að fólk átti sig ekki alveg á því hvernig það var að vera 18 eða 19 ára að reyna að fá vinnu á þeim tíma þegar allir áttu að vera að safna sér peningum. Að sama skapi búum við við það að ef þú ætlar að reyna að mennta þig sem íslenskur námsmaður í dag þá er þér beinlínis haldið í láglaunagildru. Þú ert með afkomu upp á 150.000 kr. til 180.000 kr. á mánuði, það hefur reyndar breyst gífurlega mikið, en það er búið að takmarka rosalega mikið hvað íslenskir námsmenn mega vinna sér inn á ári. Einstaklingur eins og ég, sem hef reynt að vinna með skóla mestalla mína ævi, hefur í raun og veru ekkert á milli handanna þegar hann kemur út á hinn almenna vinnumarkað — reyndar ekki hinn almenna vinnumarkað í mínu tilviki, Alþingi telst varla almennur vinnumarkaður. En bara það að eiga fyrir útborgun er svo stórt vandamál að ég sé ekki hvernig þetta eigi að gagnast.

Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um að þetta muni í raun og veru gagnast þeim tekjuhæstu hvað mest. Nú leyfði ég mér að gera nokkra útreikninga og ég sé að í þessu er gert ráð fyrir því að taka megi út 5 milljónir allt í allt á 10 árum. Ef ég væri að taka séreignarlífeyrissparnað væri það um það bil 30.000 kr. á mánuði og 15.000 kr. mótframlag, sem er 45.000 kr. á mánuði. Það gera 540.000 á ári. Ef þú ætlar að nýta þér þetta til fulls um leið og þú kemur úr námi þarftu í fyrsta lagi að hafa sparað þér fyrir útborgun á íbúð. Ef við erum að tala um núverandi húsnæðisverð — 20 fermetra herbergi í kjallara er komið í 20 milljónir í 101 — erum við að tala um að fólk þarf einhvern veginn að hafa getað sparað sér 5 milljónir til þess að geta borgað út íbúðina og fengið 80% lán. Þá duga ekki þessi 45.000 kr., eða 40.000 kr. á mánuði út af því að ég má ekki nota allan lífeyrissparnaðinn minn, þar sem þetta eru bara 5 milljónir á 10 árum; þetta eru því 500.000 kr. á ári eða aðeins minna. Við sjáum því fram á það að til þess að geta nýtt sér þetta úrræði að fullu þarf einstaklingur sem er nýkominn úr námi að vera í einstaklega góðum félagslegum aðstæðum. Ég veit ekki alveg hvernig þetta á að hjálpa, ég bara sé það ekki.

Að sama skapi er bent á að þeir tekjulægri fái húsnæðisbætur og húsaleigubætur og ég veit ekki hvað. Ef við horfum á þær tölur, þessar gífurlegu tölur sem húsaleigubætur eru — ef þú ert með 200.000 kr. í mánaðarlaun færðu 22.000 kr.; 300.000 kr. tæplega 15.000 kr.; 400.000 kr. tæpar 7.000 kr. og 500.000 kr. þá er þetta orðið núll. Við erum að tala um að leigukostnaður á leigusvæðinu — nú er hæstv. ráðherra farinn en það er sjálfsagt eins og alltaf; hæstv. ráðherrar virðast ekki hafa áhuga á að hlusta á konur. En allt í lagi, ég held bara áfram. Við erum að tala um að þær húsnæðisbætur sem hér eru lagðar fyrir — íbúð eins og ég er að leigja er á 180.000 kr. Það þykir vel sloppið fyrir þriggja herbergja íbúð. Ég hefði ekki efni á því að búa ein þar með kærastanum mínum án þess að ég væri á þessum launum einfaldlega út af því að leiguverð er orðið svo hátt. Við erum að tala um að íbúðir sem eru að fara á leigumarkað eru nú leigðar á 200.000 kr. eða 220.000 kr. Það er meira en margir eru með í mánaðarlaun þegar þeir eru nýkomnir úr starfi. Á sama tíma ef þú ert í láglaunastarfi þá er skyldulífeyririnn heldur ekki hár. Ég held því að ég verði að taka undir með hv. þingmönnum sem hafa reifað það af hverju þetta er ekki sniðugt. Ég væri frekar til í að sjá annað úrræði til að hvetja ungt fólk til að spara fyrir húsnæði. Þá get ég ímyndað mér í sambandi við námslán að hægt sé að hafa námslán þannig að tekjurnar sem námsmaður má hafa á ári geti verið hærri að því gefnu að námsmenn leggi fyrir á lokaða bók sem er ætluð til húsnæðiskaupa, hugsanlega væri hægt að gera eitthvað svoleiðis einfaldlega út af því að núverandi fyrirkomulag hjá námsmönnum er ekki gott. Ef námsmaður vinnur of mikið skerðast námslánin, sem er allt í lagi. En það þurfa að sjálfsögðu að vera takmörk fyrir því hversu mikið það er og það þarf líka að gefa fólki rými til þess að geta sparað.

Ég sé enga ástæðu til að vera að bixa með þennan séreignarlífeyrissparnað, ég sé einfaldlega ekki tilganginn með því. Fólk mun einfaldlega þurfa að vera í sérstaklega góðri stöðu þegar íbúðin er keypt. Þessar húsnæðisbætur sem endalaust er verið að tönnlast á eru hvorki fugl né fiskur í þessu sambandi sér í lagi þar sem húsnæðisverð á leigumarkaði er rokið upp úr öllu valdi. Ég held það væri miklu betra, ef við ætlum að laga eiginfjárstöðu ungs fólks, að koma til móts við ungt fólk á leigumarkaði til að það geti sjálft sparað ef það hefur áhuga á því.

Ég hef því ekki sérstaklega mikla trú á frumvarpinu en það verður sjálfsagt að ræða það frekar. Ég tek hins vegar heils hugar undir þá gagnrýni sem hefur komið hér fram. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra.