145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er gerð tillaga að því að takmarka heimildir til þess að veita ný verðtryggð langtímajafngreiðslulán með þeim hætti að hámarkslánstími þeirra verði að meginstefnu bundinn við 25 ár. Þessi lán hafa stundum gengið undir nafninu Íslandslán í þjóðfélagsumræðunni og eru mjög algeng á íslenskum lánamarkaði. Þau hafa verið nokkuð vinsæl fyrir það að þau bjóða upp á einna lægstu greiðslubyrðina í upphafi lánstímans. Enda þótt þetta verði þannig samkvæmt frumvarpinu að hámarkslánstíminn sé að meginstefnu bundinn við 25 ár er þessi takmörkun ekki án undanþágna. Frumvarpið hefur að geyma allvíðtækar undanþágur.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fólk undir 44 ára aldri geti tekið verðtryggð jafngreiðslulán þannig að einungis lítill hluti lánstímans sé eftir þegar eftirlaunaaldri er náð. Lánstími verðtryggðra jafngreiðslulána geti þannig verið til allt að 40 ára sé lántaki yngri en 35 ára, til allt að 35 ára sé lántaki 35–39 ára og til allt að 30 ára sé lántaki 40–44 ára.

Þá er sérstök undanþága vegna tekjulágra einstaklinga sem geta átt erfitt með að standa undir afborgunum af óverðtryggðum lánum og styttri verðtryggðum jafngreiðslulánum. Menn muna kannski eftir umræðu um það í þinginu frá því fyrr á þessu ári að teknar voru saman upplýsingar um það hversu margir af þeim sem hafa tekið og staðist greiðslumat vegna lántöku þar sem notast var við 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán mundu standast greiðslumat á sambærilegu 25 ára láni. Það kom í ljós að aðeins mismunandi eftir fjármálastofnunum var það samt sem áður þannig að mjög verulegur hluti þeirra sem tekið höfðu 40 ára lánin mundi ekki standast greiðslumat á 25 ára láninu. Þess vegna er undanþágan vegna tekjulágra einstaklinga sett inn í frumvarpið en ljóst er að það eru einkum tekjulægri, en líka er lögð til sérstök undanþága þegar veðsetningarhlutfall fer ekki yfir 50% enda er þá mjög lítil hætta á yfirveðsetningu og erfiðleikum fyrir lántaka.

Ég vil einnig taka fram að þar sem einungis eru lagðar til takmarkanir á veitingu nýrra lána hefur frumvarpið ekki áhrif á heimildir til yfirtöku eldri lána eða verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum. Lán með jöfnum afborgunum eru annars eðlis og skiptir máli að halda því til haga.

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að þetta frumvarp ber að skoða í samhengi við frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð sem ég lagði samhliða fram á Alþingi og hefur að geyma hvata til töku óverðtryggðra lána með vissum hætti, a.m.k. stuðning við þá sem kjósa þann valkostinn á lánamarkaðnum. Einnig má segja að í því frumvarpi sé létt undir með þeim sem kjósa styttri verðtryggð lán. Með þessu tel ég að það náist að gera óverðtryggð húsnæðislán og styttri verðtryggð lán að raunhæfari valkosti fyrir húsnæðiseigendur, en þeir munu þó alltaf þurfa að velta öllum kostum fyrir sér áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Með þessu frumvarpi er tekið skref í átt að því að draga úr því formi verðtryggingar sem við höfum helst búið við á undanförnum árum, þessum 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulánum. Eins og kunnugt er geta slík lán við ákveðnar aðstæður leitt til yfirveðsetningar og hægari eignamyndunar en önnur lánaform. Í því frumvarpi sem hér er teflt fram er að finna töflur sem draga þetta ágætlega fram. Þar má sjá hvernig höfuðstóll jafngreiðsluláns þróast yfir lánstímann á 40 ára verðtryggðu láni. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan ég heyrði síðast í einstaklingi sem nefndi það við mig að hann væri afar ósáttur við að höfuðstóllinn hefði verið að hækka á undanförnum árum þrátt fyrir að hann hefði staðið skilvíslega í skilum með hverri einustu afborgun í um tíu ár. Þetta er nokkuð sem margir kannast eflaust við en staðreyndin er sú að jafnvel þótt verðbólga haldist stöðug allan 40 ára lánstímann hefur það legið fyrir frá upphafi lántökunnar að höfuðstóllinn mundi hækka og hann mundi reyndar hækka fyrstu rúmu 20 árin í slíku láni.

Þetta gefur tilefni til að spyrja hvort neytendur séu almennt nægilega vel upplýstir um það undir hvað þeir eru að gangast, hvað bíður þegar slík lán eru tekin. Það er full ástæða til að hvetja lánafyrirtækin í landinu til þess ekki bara að prenta út langar greiðsluraðir sem sýna hvernig mánaðarleg afborgun verður eftir 20 ár í langri talnarunu heldur sýnir þetta líka myndrænt og á sem bestan hátt að draga fram allar upplýsingar sem máli skipta fyrir lántaka.

Þetta dæmi sem ég nefni er held ég mjög dæmigert, ef svo mætti að orði komast, um það sem á við hjá svo mörgum að það kemur mönnum í opna skjöldu þegar tíu ár eru liðin að höfuðstóllinn sé að vaxa en það hefði ekki átt að koma neinum á óvart væru menn vel upplýstir um það lánaform sem þeir voru að taka.

Þetta frumvarp sem er hér lagt fram er lagt fram samhliða og er í samhengi við frumvarpið sem var rætt fyrr í dag. Þetta mál er skref í þá átt að draga úr notkun Íslandslánanna og ég veit að um þær fyrirætlanir sem fylgja frumvarpinu verður fjallað mjög vel í meðförum þingsins og í nefnd.

Mig langar til að bæta aðeins við undir lokin að það hlýtur þrátt fyrir þær aðgerðir sem eru kynntar í þeim málum sem við höfum rætt í dag að vera meginverkefni stjórnvalda hverju sinni að byggja undir stöðugleikann og lægra vaxtastig. Þetta hefur oft komið fram í umræðunni hér í dag. Kallað er eftir lægri vöxtum. Það er ekkert skrýtið að bent sér á nágrannalöndin og það vaxtastig sem þar er. Ég t.d. kynnti mér að í Noregi um þessar mundir eru óverðtryggð lán veitt ungu fólki á rétt rúmlega 1% vöxtum þrátt fyrir að verðbólgan þar sé einhvers staðar á bilinu 3–4% en stýrivextirnir vel innan við 1%. Það er ekki nema eðlilegt að menn velti þessu fyrir sér en það er hins vegar afskaplega mikilvægt að við reynum að komast að skynsamlegu svari og niðurstöðu um ástæður og forsendur fyrir þessum mun á Alþingi í sameiningu og af yfirvegun.

Mín skoðun hefur áður komið fram, ég ætla hins vegar aðeins að koma að því, enn einu sinni, að það þarf að gera breytingu á ramma vinnumarkaðarins í anda þess sem rætt er um núna undir merkjum SALEK-samkomulagsins. Það þarf að gera breytingu, það þarf að takast miklu betri sátt milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins um það hvaða svigrúm er til staðar í hagkerfinu hverju sinni, annars vegar til að gera launahækkanir og hins vegar til að bæta í á útgjaldahlið ríkisins. Vinnumarkaður og hið opinbera eru stærstu áhrifavaldarnir á vaxtaþróun í landinu sem við höfum stjórn á. Við höfum afskaplega litla stjórn á svo mörgu öðru sem tengist utanríkisviðskiptum og ástandinu í öðrum löndum, viðskiptakjörum okkar og þáttum eins og olíuverði, kostnaðaraukningu vegna innflutnings. Á því höfum við mjög litla stjórn. Fyrst ég nefndi dæmið um Noreg er verðbólgan sem mælist þar í dag, einmitt út af slíkum þáttum, út af mikilli veikingu norsku krónunnar, að fara þar yfir hagkerfið. Þetta verkefni hefur staðið lengi yfir, við höfum svo sem náð árangri. Ég get nefnt sem dæmi að frá því að ég var að leika mér í sandkassanum í leikskólanum um þriggja ára aldurinn og þar til ég útskrifaðist úr menntaskóla var verðbólgan stanslaust yfir 20%. Hún fór aldrei undir 20%. Hún var lengstum reyndar töluvert yfir 20%. Að bera það síðan saman við síðustu 25 ár er eins og að bera saman epli og appelsínu, þetta eru ólíkir hlutir, þróunin hefur orðið mun hagstæðari eftir árið 1990 en við höfum þó séð dýfur, skelli, sem hafa komið í bakið á launamönnum og heimilunum í landinu. Nokkrum sinnum svolítið hressileg verðbólguskot sem hafa verið einkenni þess að undirliggjandi stöðugleiki hefur ekki verið nægjanlegur. Þetta verkefni fer ekki frá okkur þótt hér sé verið í þeim tveimur málum sem við leggjum fram í dag að reyna að hafa áhrif til þess að laga umhverfið í lánamálum fyrir Íslendinga til framtíðar.

Sú vinna sem liggur að baki þessu frumvarpi hófst snemma á kjörtímabilinu. Við skipuðum nefnd, vorum með nefnd um verðtrygginguna, það var svo sem ekki alveg einhugur í niðurstöðu nefndarinnar en það var meiri hluti, nokkuð skýr, sem lagði fyrir ríkisstjórnina að grípa til vissra aðgerða. Ein aðgerðin var einmitt sú sem við erum að boða, að banna almennt þessi 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulán. Það má segja að verið sé að gera það með þessu frumvarpi. Undanþágurnar sem er að finna í frumvarpinu kallast á við mótvægisaðgerðirnar sem fjallað var um í skýrslunni að þyrfti að grípa til. Það var ekki þannig að í skýrslunni væri talað um að það ætti að koma blátt bann við 40 ára jafngreiðslulánum. Það var sagt: Ef það skref verður stigið þarf að grípa til mótvægisaðgerða. Mótvægisaðgerðirnar birtast víða, þær birtast í þessu frumvarpi í formi undanþágna, þær birtast líka í hinu frumvarpinu með því að menn geta tekið út séreignarsparnað og létt sér greiðslubyrði óverðtryggðra lána og síðan var fleira nefnt í skýrslu nefndarinnar, svo sem það að það þyrfti að beita sér fyrir ákveðinni temprun á húsnæðismarkaðnum. Ég get nefnt sem dæmi að við höfum fært Fjármálaeftirlitinu heimildir til að setja mörk á veðsetningarhlutföll vegna íbúðakaupa. Það er önnur ráðstöfun sem rætt var um í skýrslunni. Við höfum sömuleiðis verið í þinginu með önnur frumvörp sem eru í anda þess sem meiri hluti nefndarinnar fjallaði um. Að sjálfsögðu er enn og aftur heimildin til að létta sér greiðslubyrði óverðtryggðra lána mikilvæg í þessu stóra samhengi.

Ég rifja upp störf nefndarinnar til þess að setja þetta mál í samhengi. Það er orðið tímabært að þingið fái að takast á við þetta mál. Grunnur þess er í niðurstöðum nefndarinnar, það kemur inn í þingið samhliða öðrum ráðstöfunum, það er orðið tímabært að þingið taki það til meðferðar, fái um það umsagnir og við stígum þau skref sem þar er verið að leggja til í þeim tilgangi að hreyfa aðeins til eðli húsnæðislánamarkaðarins á Íslandi til framtíðar. Ef vel tekst til mun okkur takast að fá markað þar sem fleiri valkostir standa lántakendum til boða. Það þroskast betur markaðurinn með óverðtryggðu lánin en þegar allt kemur til alls getum við í sjálfu sér ekki gert meira gagn með nokkru verki á þinginu en því sem getur á endanum leitt til meiri stöðugleika og lægra vaxtastigs. Það er það sem á endanum skiptir langmestu máli.

Ég ætla að nota tækifærið sömuleiðis til að láta þess getið að þótt við gerum óverðtryggðu lánin að raunhæfari valkosti með þessum breytingum samanlagt sem við mælum fyrir í dag er það engu að síður svo að það lánaform eins og önnur hefur sína kosti og galla. Það þarf að taka það með í reikninginn þegar menn gera langtímaáform sín.

Mig langar líka til að geta þess að það skiptir máli að frumvarpið sem við ræddum fyrr í dag á að taka gildi um mitt næsta ár og við getum nýtt tímann fram að því til að eiga gott samstarf við fjármálastofnanirnar vegna þess að þótt ekki sé með nokkru móti hægt að gefa einhvers konar veð í séreignarsparnaðinum verður það að verða niðurstaðan á endanum að fjármálafyrirtækin viðurkenni að það styrki greiðslugetu lántakans, að hann sé að leggja til hliðar og þannig jafnt og þétt að byggja undir heimildir til að taka út og standa betur að vígi hvað endurgreiðslubyrðina snertir. Það er einn anginn af þessu máli sem þarf að tryggja að gangi sömuleiðis eftir. Ég beini því til nefndarinnar að taka upp það samtal við fjármálafyrirtækin hversu mikilvægt það er að í greiðslumatsferlinu sem á sér stað verði raunverulega horft til þess að heimildirnar til úttöku séreignarsparnaðar eru til staðar til langs tíma og hafa eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar mikil áhrif á greiðslugetu fólks þegar kemur að óverðtryggðu lánunum sérstaklega. Þar er opið fyrir það að nýta úttektina beint inn á greiðslubyrðina. Auðvitað hefur það verið þannig að þegar menn hafa notað séreignarsparnaðinn beint inn á höfuðstól hefur það aðeins létt greiðslubyrðina yfir tíma en það er mjög lítið vægi samanborið við það hversu miklu þetta skiptir fyrir greiðslubyrðina þegar maður notar úttekt séreignarsparnaðarins beint inn á greiðslubyrði hvers mánaðar. Eins og menn muna erum við að leggja til að allur séreignarsparnaðurinn á ári eitt fari beint í að létta greiðslubyrði óverðtryggðra lána, á ári tvö geti 90% farið í að létta greiðslubyrðina og svo koll af kolli í tíu ár. Þetta er einn þátturinn sem ég beini til nefndarinnar að fylgja aðeins eftir. Á sama tíma er það auðvitað svo að þar sem úrræðið tekur gildi um mitt næsta ár er svo sem tími til að bregðast við hvers konar áskorunum sem við kunnum að mæta í þessu.

Að því sögðu mælist ég til þess, virðulegi forseti, að málið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.