145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel einfaldlega að peningarnir hafi eitthvert virði í höndum þeirra sem ætla að lána þá og það muni bara springa út einhvers staðar annars staðar ef menn ætla að nota aðra samsetningu vísitölu í lánasamningum. Þetta er dálítið eins og að segja að við ætlum að mæla þetta á Fahrenheit en ekki á Celcius, þá breytast bara aðrar tölur til samræmis. Það mun þá hreinlega birtast í vaxtaálaginu ef vísitalan innifelur ekki alla þætti sem hún gerir í dag.

Að þessu sögðu vil ég taka fram að það er alveg skýrt og er hluti af rökstuðningi í greinargerð með þessu máli, að það er mikill ávinningur fyrir samfélagið allt ef við getum leitt fram breytingar t.d. á húsnæðislánamarkaðnum og annars staðar sem tryggja það að vaxtastefna Seðlabankans hafi meira bit, að miðlunarferlið sé sem sagt skilvirkara. Það yrði sannarlega þannig ef við værum með hærra hlutfall af óverðtryggðum lánum. En það eitt leysir ekki vandann. Við verðum að ná betur (Forseti hringir.) heildstætt utan um opinber fjármál og stöðuna á vinnumarkaði.