145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tek undir það, við eigum að gera sem minnst af því að vera með inngrip en fyrir því geta þó í vissum tilvikum verið góð rök. Ég nefni sem dæmi að víða þekkist að menn telja afar óheppilegt af fenginni reynslu að boðið sé upp á lánskjör þar sem menn greiða aldrei neinar höfuðstólsgreiðslur heldur halda bara vaxtagreiðslunum við og ætla síðan að endursemja í lok lánstímans um höfuðstólinn. Í nágrannalöndunum hefur þetta sums staðar verið tekið til skoðunar og þykir hafa haft slæm áhrif á markaði, hvort sem á fjármálamarkaði eða húsnæðismarkaði, og menn hafa sett skorður við slíku. Með því að þrengja að notkun 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána erum við að segja að þau geti haft slæm áhrif. Þau draga úr virkni peningastefnu Seðlabankans og ýta undir hvata til að taka lán sem menn geta í raun og veru ekki (Forseti hringir.) greitt af mánaðarlega nema með því að velta hluta kostnaðarins við lánið á undan sér. Það eitt og sér getur haft óæskileg áhrif.