145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir síðustu kosningar gaf Framsóknarflokkurinn tvö mikil kosningaloforð. Annað var skuldaleiðréttingin svokallaða og hitt var að afnema verðtryggingu. Við vitum öll hvernig fór með skuldaleiðréttinguna. Þau segja vissulega: Við höfum staðið við það, ríkisstjórnin hefur staðið við allt sem hún lofaði í því. Jú, jú, það var skuldaleiðrétting upp á 80 milljarða en stór hluti af því fór til fólks sem þurfti ekki á neinni leiðréttingu að halda, sem hefði getað staðið í skilum með lán sín án skuldaleiðréttingar. Það hefði verið erfitt, hefði verið erfiðara, það er alveg ljóst, en það þurfti ekki á þessu að halda. Og það er það sem skiptir máli varðandi skuldaleiðréttinguna og margt sem verið er að gera. Tökum bara LÍN. Þar eiga allir að fá 65 þús. kr. á mánuði, hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki. Nú vil ég alls ekki að einhver haldi að ég sé á móti því að fólk fái námsstyrki. Ég er aðeins að setja þetta í samhengi, það sem er verið að tala um hérna.

Skuldaleiðréttingin: Fullt af peningum sem við áttum sameiginlega í sjóðum var fært út til fólks sem þurfti ekki á því að halda. Það var annað kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Hitt var afnám verðtryggingar. Þá er þetta frumvarp lagt hérna fram. Þetta frumvarp er ekki einu sinni barbabrella, virðulegi forseti. Þetta frumvarp er hvorki fugl né fiskur. Það virðist vera aðalmarkmið frumvarpsins að banna 40 ára lánin en síðan kemur í ljós varðandi undanþágurnar frá þeim, eins og hæstv. ráðherrann sagði áðan, að það er ekki alveg vitað hvað það er mikið, getur verið frá þriðjungi upp í 2/3, einhvers staðar þar á bilinu. En ef það nær 2/3? Þetta er hvorki fugl né fiskur. Ég vil segja að ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að banna 40 ára lánin. Af hverju er ég þeirrar skoðunar? Það er vegna þess að þetta eru þau lán sem fólk, venjulegt fólk, ræður við. Það ræður ekki við önnur lán. Meðan við erum með krónuna eru vextir svo háir hér á landi að það er náttúrlega næstum því grín að tala um að menn taki mjög mikið óverðtryggð lán. 7% vextir á ári, 8% eða hvað það er. Greiðslubyrðin er svo mikil að venjulegt fólk ræður ekki við það. Þess vegna voru þessi 40 ára lán fundin upp. Þetta var aðferð til þess að fólk gæti ráðið við lán sem hvíldu á húsnæði þess.

Ég tel að það sé óráð að banna þau. Ég er hins vegar alveg hjartanlega sammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að auðvitað eiga lánastofnanir að útskýra það vel fyrir fólki hvernig þessi lán virka. Það er sjálfsagt mál. En ég held sannast að segja að flest fólk sem tekur lán af þessu tagi átti sig á því. Stóra verkefnið hlýtur að vera hér fyrir okkur, að ná tökum á verðbólgunni. Forsætisráðherra sagði í yfirlitsræðu sinni á mánudaginn var að nú ætti að fara að flytja þessi mál og að þetta væri til að verja fólk fyrir verðbólguskotum. Komum í veg fyrir verðbólguskot. Það er hægt að gera með því að taka upp aðra mynt. Því fylgja vissulega miklar áskoranir en reynum að takast á við það vegna þess að það er það sem mun gagnast til framtíðar.

Eins og virðulegur forseti veit er ég ekki fædd í gær, ekki frekar en ráðherrann sem var í sandkassa á milli 72 og — ég held að hann hugsanlega hafi ekki verið nema þrjú, fjögur ár í viðbót við það í sandkassa en síðan var hann annars staðar. Þá segir hann að verðbólgan hafi verið 20% eða meira. Það er hárrétt. Meira að segja þá, þegar verðbólgan var 20% eða meira, var erfitt fyrir fólk fyrstu árin að koma sér upp húsnæði. Það verður alltaf erfitt. Við skulum ekkert fara í neinar grafgötur með það. En við þurfum að finna eitthvert kerfi sem gerir það eins auðvelt og mögulegt er. En hvað gerðist vegna áranna frá 1970–1980? Þá voru þessi lán öll étin upp af verðbólgunni, þannig að vissulega kom kynslóð sem byggði á þessum árum og þegar hún var búin að eiga húsnæði sitt í kannski fimm eða tíu ár var þetta orðið mjög auðvelt vegna þess að lánin höfðu öll étist upp. Mjög gott mál. En hvað gerðist á móti? Það lagðist af sparnaður í landinu. Þess vegna var tekin upp verðtrygging, til þess að fólk sem fékk 100 kr. lánaðar borgaði 100 kr. til baka en ekki 50 kr. eða eitthvað svoleiðis. Verðtryggingin er ekki sökudólgurinn. Það er verðbólgan sem er sökudólgurinn. Við þurfum að ná tökum á henni og stærsti blóraböggullinn fyrir verðbólgu á Íslandi er krónan. Það er svoleiðis. Þess vegna þurfum við að finna leiðir til þess að þurfa ekki um alla framtíð að lifa við þann gjaldmiðil og þessi verðbólguskot, eins og þau eru kölluð, þannig að þau verði ekki.

Ég ætla að óska eftir því að framsóknarmenn komi í þennan ræðustól og segi okkur hvort það frumvarp sem er lagt fram með séreignarfrumvarpinu svari þeirra kröfu eða loforði um að hér sé verðtrygging afnumin. Ég vil taka skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar að það væri glapræði á meðan við erum með íslenska krónu að afnema verðtrygginguna. Eins og ég sagði áðan er ég líka þeirrar skoðunar að varðandi 40 ára lánin sem virðist á pappírnum að verið sé að banna eða reyna að útrýma eða hvaða orð sem er notað yfir það, þá tel ég það heldur ekki skynsamlegt. Og svo ég endurtaki það: Af hverju er það ekki skynsamlegt? Það er vegna þess að þetta eru einu lánin sem venjulegt fólk ræður við afborganir af á fyrstu árunum. Það er meira að segja þannig, virðulegi forseti, að þessi lán eru oft á tíðum á fyrstu árum lægri en meira að segja leiguverð. Nú er sem betur fer að koma einhver meiri stuðningur við fólk sem kýs að leigja. Það er gott vegna þess að ég tel að við eigum að koma upp húsnæðismarkaði hér á landi þar sem þeir sem ekki vilja binda sig á skuldaklafa um alla framtíð geti leigt húsnæði án þess að eiga á hættu að þeim sé sagt upp húsnæðinu og þurfi jafnvel, eins og við þekkjum dæmi um, að flytja tíu sinnum á tíu árum. Þess vegna þurfum við að koma því upp. Það er líka vegna þess að við verðum að taka tillit til þess að séreignarstefnan í húsnæðismálum sem hér hefur verið við lýði og er enn þá verið að undirbyggja hentar ekkert öllum. Hún hentar kannski enn síður nú á dögum þegar fólk er orðið miklu hreyfanlegra en áður. Fólk vill kannski búa í útlöndum í einhver ár og koma og fara. Þá er þessi séreignarstefna í húsnæðismálum að hluta til svolítið gamaldags.

Eins og ráðherrann sagði ber að ræða þetta í samhengi við frumvarpið sem var rætt á undan um séreignarsparnaðinn, en eins og bent var á í umræðunni gerist það enn í störfum þessarar ríkisstjórnar að þeir sem hafa það betra fá meira en hinir. Það er einkennismerki þessarar ríkisstjórnar. Því þarf að breyta. Það þarf að breyta því hvernig þjóðarkökunni er skipt. Það þarf meira að koma í hlut launþega. Það þarf meira að koma í sameiginlega sjóði frá þeim sem nýta auðlindirnar í landinu. Það er lykilatriði til þess að hægt sé að hækka kaupið við fólkið í landinu án þess að því sé öllu velt út í verðlagið, sem atvinnurekendur reyna því miður alltaf að gera. En ef þeir gera það ekki þá breytist skipting þjóðarkökunnar. Ráðherrann segir réttilega: Við eigum fyrst og síðast að reyna að halda stöðugleika. Ég er alveg sammála honum í því, en það er líka gert með því að atvinnuvegirnir taki fullan þátt í því sem er verið að reyna að gera, að það sé lífvænlegt í þessu landi fyrir venjulegt fólk. Þess vegna eigum við að leggja höfuðáherslu á það markmið að við getum öll lifað í þessu landi, getum búið í þessu landi, getum greitt húsaleigu í þessu landi ef við viljum vera í leiguhúsnæði, að við ráðum við afborganir af lánum. Þess vegna, a.m.k. á meðan aðrar stórvægilegar breytingar hafa ekki orðið í efnahagslífinu, er fáránlegt að láta sér detta í hug að banna 40 ára lánin.

Þessi mál munu koma í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég á sæti og það verður fróðlegt að fara ofan í þau í öllum smáatriðum. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra og hef lokið máli mínu.