145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eitt af stóru loforðum ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála var að afnema verðtryggingu. Síðan var sett á fót nefnd og svo var talað um að ekki væri hægt að afnema verðtrygginguna en það væri hægt að banna þessi 40 ára lán. Nú er það frumvarp komið fram en það er alveg ljóst að þetta bann á við ákaflega fáa. Ef þetta á að vera tillaga um afnám verðtryggingar finnst mér hún ganga ansi stutt. Í raun og veru er ég ekki alveg sannfærð, ég er ekki alveg viss um, án þess að vilja vera eitthvað rosalega neikvæð, hvort þetta sé upphafið á endinum á verðtryggðum lánum eða hvort þetta muni í raun lengja enn frekar í því ferli að verðtryggingin verði hluti af fortíðinni.

Hér er talað um þessi Íslandslán. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki það vel að mér um hver ber ábyrgð á hverju og er alltaf að kalla eftir því að vita hver ber ábyrgð á ýmsum afglöpum í íslenskri stjórnsýslu. Það er oft mjög erfitt að ná því fram. En ég verð að spyrja: Ef þessi lán eru svona vond, því mér sýnist í raun og veru að þetta séu vond lán og vond aðferð við að eignast húsnæði, af hverju í ósköpunum var boðið upp á þessa leið yfir höfuð? Ég skil það ekki og mér finnst oft þegar við ræðum húsnæðismál umræðan vera oft bæði mjög ruglingsleg og alltof oft þannig að ekki er horft á stóra samhengið.

Ég hef oft komið hér upp og talað um neyðarástand sem ríkir á leigumarkaði. Ég sé ekki að þær aðgerðir yfirvalda sem hafa verið lagðar á borð undanfarið taki á þeim bráðavanda. Ég er aftur á móti mjög fylgjandi því að það sé viðhöfð langtímastefna í húsnæðismálum og sé margt gott í þeim tillögum sem voru lagðar fram og gerðar að lögum frá hæstv. ráðherra húsnæðis- og velferðarmála. Það er jú alltaf þannig að alveg sama hver svo sem er við völd þá gerir fólk oft ágæta hluti inni á milli. En það sem hér er verið að leggja til og frumvarpið sem var fjallað um áðan til þess að auðvelda ungu fólki að kaupa húsnæði, mér sýnist þetta ekki hjálpa því unga fólki sem þarf hvað mest á stuðningi að halda. Þetta er ekki fyrir fólkið sem á í raun í engin hús að venda. Það getur ekki leigt sér því leigan á höfuðborgarsvæðinu, og það á ekki bara við um miðbæinn, er orðin rosalega úr takti við mánaðarlaun almennings, hvað þá lánin sem nemendur fá til þess að eiga að lifa af mánuðinn, og svo mætti lengi telja. Ég óttast mjög að þegar farið er í svona aðgerð nái hún ekki til þeirra sem þurfa, þetta er ekki einu sinni plástur sem nær yfir nema brotabrot af sárinu, það er enn þá sár. Það er enn þá þannig að fólk sem býr við kröpp kjör er sett inn í lánaumhverfi sem minnir mig á keðjur sem festa það í einhverjum átthagafjötrum og við veruleika sem það kemst aldrei út úr. Mér finnst það svo skringilegt að við höfum látið þetta viðgangast svona lengi. Mér finnst svo skrýtið að fólk láti bjóða sér upp á þetta.

Það var einu sinni kerfi sem var kallað verkamannabústaðir. Þar var fólki boðið upp á lán á lægri vöxtum. Það var líka boðið upp á svokölluð brúarlán að mig minnir, þar sem efnalítið fólk gat líka fengið lánað fyrir útborguninni. Það kerfi var afnumið og allt sett á markað, bara bullandi samkeppni, og ég skildi aldrei alveg hvernig þeir sem áttu síðan að vera næsta kynslóð sem ætti rétt á verkamannabústöðum — það var margt gallað í því kerfi en það var þó hannað í kringum þá sem mér sýnist að ekkert sé hannað fyrir í dag, og mér finnst það mjög dapurlegt.

Maður horfir upp á það að Íbúðalánasjóður má ekki lækka vexti. Mér finnst þær tillögur sem er verið að birta hér þessi dægrin vera þess eðlis að með þeim séu mjög margir einstaklingar á Íslandi settir í viðvarandi óvissu og óöryggi og ómögulegar aðstæður. Ég get ekki stutt það. Jú, það er fínt, ég get alveg stutt að Íslandslánin séu tekin af. En hvað á að gera fyrir alla þá sem eru í neyð í dag? Ég sé ekki neitt þar að lútandi frá ríkisstjórninni.

Svo er annað sem ég skil ekki. Ég fann ekki tölfræðina um það hvað það eru margir sem taka þessi Íslandslán að gamni sínu en ekki út af því að þeir geta hreinlega ekki gert neitt annað og falla þá ekki undir undanþáguna. En það er eitt sem mér finnst svo skringilegt og það er að verið er að ýta að fólki og hvetja fólk til að fara í óverðtryggð lán. Gott og blessað. Það er mjög gott fyrir þá sem geta borgað meira af mánaðarlaunum sínum en þeir sem hafa farið í verðtryggð lán. Það sem mér finnst furðulegt við óverðtryggðu lánin er að vextirnir eru breytilegir. Núna erum við í fasteignabólu, virðulegi forseti, það er rosaleg fasteignabóla á höfuðborgarsvæðinu. Hún er stórhættuleg. Maður sér eign sem var með fasteignamat fyrir fjórum árum upp á 18 milljónir skyndilega vera komna upp í 30 milljónir. Þetta er mjög hættulegt ástand því að það þýðir að þeir sem hafa lítið á milli handanna eiga ekki séns, hvorki á að kaupa sér húsnæði né leigja það. Það er ekki brugðist við því á neinn hátt í tillögum ríkisstjórnarinnar og það er ekki brugðist við þeirri staðreynd að allar bólur springa, alltaf. Það er staðreynd. Það er lögmál. Það er náttúrulögmál. Það er nákvæmlega ekkert þak á því hversu mikið vextirnir mega hækka, hvorki þegar kemur að verðtryggðum eða óverðtryggðum lánum. Mér finnst þetta ekki í boði. Ætluðum við ekkert að læra neitt af fjármálahruninu og þeim aðstæðum sem svo margir Íslendingar voru settir í þegar lánin þeirra breyttust í einhvern óskapnað sem ekki nokkur maður gat borgað?

Ég er ekki sannfærð um að þetta mál breyti neitt voðalega miklu en mundi gjarnan vilja vita ef einhverjir þingmenn hafa hugmynd um það hver ber ábyrgð á þessum Íslandslánum sem nú eru talin þess eðlis að það eigi að banna þau af því að þau eru svo slæm. Það væri mjög gagnlegt og fróðlegt að vita það. Nú búum við náttúrlega við þannig stjórnsýslu að það er alveg sama hvaða vitleysa er sett á borð og gerð að lögum eða heimiluð, það ber ekki nokkur einasti maður ábyrgð, aldrei.