145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hljóp eitthvað á mig hér fyrr í dag þegar ég sagðist fagna því að þetta mál væri komið á dagskrá. Ég hélt að hér gæfist tækifæri til að eiga orðastað við Framsóknarflokkinn um hans stóra kosningaloforð um afnám verðtryggingar. En hvað gerist? Ekki einn einasti framsóknarmaður hefur sett sig á mælendaskrá út af þessum tveimur málum. Við sem ætluðum að vera hér og fara í andsvör við þau grípum í tómt.

Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir kom vissulega í andsvar við hæstv. fjármálaráðherra en við sem höfum sóst missirum saman eftir að fá að ræða þetta stóra kosningamál í þingsal grípum í tómt. Framsóknarmenn eru fjarverandi í umræðunni um stærsta kosningamálið sitt. Ég legg til að þetta mál verði tekið af dagskrá og sett aftur á dagskrá þegar framsóknarmenn treysta sér til að vera hér í húsi til að ræða það við okkur.