145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég harma það að hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir ætli ekki að taka þátt í umræðunni. Miðað við orð hennar efast ég um að þetta mál komist til 2. umr., nema hún treysti á að stjórnarandstaðan myndi meiri hluta með Sjálfstæðisflokknum í nefndinni. Svo verður að sjálfsögðu ekki.

Ég ætlaði að segja, hæstv. forseti: Eigum við ekki bara að pakka saman, hætta þessu þinghaldi og fara að undirbúa okkur fyrir kosningar? Hér í dag hefur tvennt gerst sem gefur okkur fulla ástæðu til þess. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra styður ekki lengur þessa ríkisstjórn því að hún treystir sér ekki til að standa að ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi eru þingmenn Framsóknarflokksins hundfúlir yfir því að það er búið að lúffa fyrir Sjálfstæðisflokknum og þeir ætla ekki að uppfylla kosningaloforðið um afnám verðtryggingar.

Hættum þessu bara. Við höfum ekki eftir neinu að bíða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)