145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:54]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil byrja á að fara yfir að sérfræðingahópurinn benti á sínum tíma á að það þyrfti að vinna að ýmsum mótvægisaðgerðum og ljúka ýmsum verkefnum áður en kæmi að fyrstu skrefunum í afnámi verðtryggingarinnar. Sú vinna hefur farið fram síðan, m.a. með samþykkt á frumvörpum um húsnæðismál og almennar íbúðir, og tókst að ljúka þeirri vinnu sem þurfti að fara í áður en fyrstu skrefin eru stigin. Eins og gerð er grein fyrir hér með frumvarpinu er eitt af fyrstu skrefunum að verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára yrðu afnumin með ákveðnum mótvægisaðgerðum. Þetta frumvarp er einn liður í því. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir þær leiðir sem hér eru lagðar til.

Því langar mig að beina þeirri spurningu til þingmannsins hvort hann telji að hóparnir sem þarna eru tilgreindir, aldurshóparnir, séu sú takmörkun sem skiptir máli eða hvort það þurfi að yfirfara þau mörk, þær undantekningar sem þarna eru lagðar til, hvort undantekningar mættu hugsanlega vera meiri eða minni, hvort það séu óþarflega miklar undantekningar, til að markmiðin náist. Síðan langaði mig að heyra viðhorf þingmannsins til lágmarkstíma verðtryggðra lána sem lagt er til að yrði þá hugsanlega næsta skref (Forseti hringir.) í afnámi verðtryggingar.