145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Það er ánægjulegt að framsóknarmenn koma aðeins í skoðanaskipti við okkur. Eftir stendur að enginn framsóknarmaður virðist ætla að halda ræðu í þessari umræðu sem eru náttúrlega tíðindi og vekur nokkra furðu þó að sumum þeirra hefði vissulega staðið það nær en öðrum.

Já, sérfræðingahópurinn komst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti ákveðinn undirbúning og mótvægisaðgerðir. Það kom svo sem ekki á óvart. Ætla mætti að almenningur væri verulega hræddur við að taka verðtryggð lán, jafn mikið og það hefur verið útmálað hversu skelfileg þau séu, en veruleikinn er sá að lántakendur síðustu missirin hafa í raun svarað með fótunum. Við sjáum einfaldlega að allt frá 2/3 og upp undir 4/5 af nýjum lánum til húsnæðiskaupa eru verðtryggð. Fólk velur sjálft að taka þau frekar en óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Þar á örugglega stóran hlut að máli sú staðreynd að menn ráða betur við greiðslubyrðina af þessum lánum á fyrstu árunum og komast þar af leiðandi frekar í gegnum greiðslumat.

Að sjálfsögðu er líka endurspegluð hér ástæðan fyrir því að menn segja að almenna reglan eigi að vera svona lán til 25 ára, en svo geta allir samt tekið lengri lán. Menn horfast þó í augu við þá staðreynd að við mundum ýta talsvert stórum hópi út úr því að geta yfir höfuð látið sig dreyma um að kaupa íbúð ef þessar undanþágur væru ekki settar upp. Ég hef ekki sterka skoðun á því hvort þær séu þær alveg réttu. Þetta er allt saman óskaplegur fjallabaksvegur, að nafninu til sagt að þessi lán séu óheimil til lengri tíma en 25 ára en síðan eru heilmiklar undanþágur bundnar við tekjur og aldur.

Ég er alveg sammála því að það kemur vel til greina að lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána. (Forseti hringir.) Ég man alveg þegar hann var lengdur í fimm ár einhvern tímann fyrir löngu síðan þegar menn hugðust byrja að afnema verðtryggingu eftir stöðugleikann í kjölfar þjóðarsáttar. Svo varð aldrei meira úr því en það kann vel að koma til greina og að mörgu leyti er fullkomlega fáránlegt að verðtryggja lán til tiltölulega fárra ára.