145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir atkvæðagreiðslu félagsmálaráðherra í gær og yfirlýsingar hennar og þingmanns flokksins skora ég á Eygló Harðardóttur og Framsóknarflokkinn að flytja í þinginu frumvarp um aukinn stuðning við barnafjölskyldur, hækkun á ellilífeyri og hækkun á örorkulífeyri. Ef félagsmálaráðherra vill hækka lífeyri og auka stuðning við barnafjölskyldur og Framsóknarflokkurinn meinar það að hann vilji það liggur þegar fyrir að við öll í stjórnarandstöðunni styðjum það. Það væri þess vegna ríkur þingmeirihluti fyrir því að taka slíkt þingmál á dagskrá.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða slíkt þingmál hér í gegn á tiltölulega fáum dögum. 44 þingmenn væru á bak við slíkt mál ef Framsóknarflokkurinn meinar það, ef hann er tilbúinn að standa við stóru orðin og leggja hér fram frumvörp. Það er aukinn þingmeirihluti. Raunar nægðu sjö framsóknarmenn, ráðherrann og sex með honum. Þá væri einfaldlega hægt að gera þetta að veruleika.

Meðan ráðherrann og Framsóknarflokkurinn fylgja ekki orðum sínum eftir og leggja fram í þinginu tillögur um að verja fjármunum til að hækka ellilífeyri, örorkulífeyri og stuðning við barnafjölskyldur er erfitt að taka mark á þeim málflutningi. En geri þau það, standi þau við stóru orðin, er ég þess fullviss að þau munu fá ríkulegan stuðning úr öllum áttum við að gera það hratt og vel að veruleika í þinginu. Það er alveg rétt að svigrúm er til að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja og auka stuðning við barnafjölskyldur í landinu. Það er alveg rétt að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur skilið þessa hópa eftir í þeirri kaupmáttaraukningu sem orðið hefur á kjörtímabilinu. Það er alveg rétt að það ætti að vera algert forgangsatriði að leiðrétta það (Forseti hringir.) en trúlega þurfum við að bíða nýs kjörtímabils og þess að stjórnarandstaðan komist hér í meiri hluta til að það verði að veruleika því að ráðherrann og Framsóknarflokkurinn eru trúlega ekki að fara að flytja neitt þingmál um þetta heldur ætlar bara að tala.


Efnisorð er vísa í ræðuna