145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er full þörf á að ræða störf þingsins í ljósi þess að ríkisstjórn landsins er í andarslitrunum. Það er einfaldlega þannig. Við erum með ríkisstjórn í andarslitrunum sem er þó að reyna að rembast við að þykjast vera eitthvað og jafnvel að reyna að segja Alþingi fyrir verkum. Þetta er ríkisstjórn sem sjálf ákvað síðastliðið vor að framlengja líf sitt og breyta sér í bráðabirgðastjórn til haustsins sem er næsti bær við starfsstjórn. Þeim fjölgar auðvitað hratt sem sjá að þetta voru mikil mistök fyrir alla aðila og ekki síst stjórnarflokkana að kjósa ekki síðastliðið vor. Það hefur algerlega gengið eftir sem ég spáði að þetta væri einfaldlega ávísun á tímasóun, óvissu og upplausn að horfast ekki í augu við veruleikann síðastliðið vor. Nú koma stjórnarliðar fram og segja: Það er þá alla vega réttast að kjósa strax, rjúfa þing tafarlaust og kjósa strax. Aðrir gera kröfur um að einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni segi af sér o.s.frv.

Sem betur fer eru hverfandi líkur á því að þessi ríkisstjórn lifi af kosningarnar í október næstkomandi. Hana mun vanta bæði þingstyrk og sennilega vilja til þess að reyna að halda samstarfinu áfram. Það er vel. Við þær aðstæður þarf forusta þingsins, forseti, formenn þingflokka og formenn flokka, einfaldlega að setjast niður og leggja algerlega sjálfstætt mat á það hvaða mál standa efnisleg rök til að afgreiða og hver á að láta bíða. Ríkisstjórn sem er að deyja og er í andarslitrunum á ekki að segja Alþingi fyrir verkum frekar en ríkisstjórnir yfirleitt endranær eiga að kúska þingið til hlýðni. Það er þingræði á Íslandi. Þetta er þingbundin ríkisstjórn.

Það er augljóst mál að einhver mál sem eiga að hafa réttaráhrif og koma til framkvæmda strax á haustmánuðum þarf að skoða, en önnur umdeild mál sem eiga hvort eð er ekki að taka gildi fyrr en t.d. á miðju næsta ári (Forseti hringir.) er fráleitt að eyða tíma í að afgreiða hér. Það er fráleitt. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert umboð til þess lengur að skipa fyrir um (Forseti hringir.) að umdeild löggjöf um lánasjóðinn eða mismununarkerfi hæstv. fjármálaráðherra gagnvart ungu fólki á (Forseti hringir.) húsnæðismarkaði verði gerð að lögum.