145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að ræða Vesturlandsveg. Það undra sig kannski einhverjir á því að þingmaður Norðvesturkjördæmis ræði vegamál utan kjördæmis síns, en það er nú svo að Vesturlandsvegur skiptir miklu máli m.a. fyrir íbúa Akraness, en Akranes er stærsta sveitarfélagið í Norðvesturkjördæmi með 7.000 íbúa. Góðar samgöngur um Vesturlandsveg skipta jafnframt miklu máli fyrir önnur sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi. Greining hefur sýnt fram á það að á hverjum degi fara um 2.000 bílar allt í allt fram og til baka úr sveitarfélögunum næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin og í þeim er fólk sem sækir bæði vinnu og skóla til höfuðborgarinnar á hverjum degi. Greining hefur jafnframt sýnt fram á það að Vesturlandsvegur hefur setið eftir þegar kemur að umbótum í vegaframkvæmdum.

Það er nú svo að á köflum getur verið mjög erfitt fyrir bíla í forgangsakstri m.a. að komast leiðar sinnar eins og ég sá í gær þegar sjúkrabíll í forgangsakstri var á leið frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og átti erfitt með að komast leiðar sinnar vegna þéttrar umferðar á þröngum vegi. Slíkir sjúkraflutningar eru farnir nánast undantekningarlaust dag hvern. Það er brýnt að fara í endurbætur á Vesturlandsvegi og bæjarstjórn Akraness hefur ályktað um málið og bent á brýna nauðsyn þess.

Í því samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu mína um Vesturlandsveg sem lögð var fram í þinginu þann 2. nóvember 2015. Hún fjallar um að hæstv. innanríkisráðherra hefji viðræður við borgarfulltrúa í Reykjavík, bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ og fulltrúa í sveitarfélögum á Vesturlandi, hafi samband við Vegagerðina og aðra hlutaðeigandi aðila um nauðsynlegar vegaumbætur á Vesturlandsvegi.

Mig langar að skora á hv. þingmenn og frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi að koma í lið með okkur flutningsmönnum tillögunnar um að þrýsta á þetta brýna samgöngumál til umbóta fyrir íbúa Vesturlands og fyrir íbúa á landinu öllu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna