145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein af þeim áhyggjum sem ég hef í sambandi við að vera með opið hagkerfi með íslenska krónu, þ.e. án hafta með öllu, er einmitt að ég sé ekki betur en það muni alltaf bjóða upp á þessar ýktu hagsveiflur hreinlega vegna smæðar landsins, vegna fámennis landsins, vegna smæðar hagkerfisins. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Þótt ég geti alveg tekið undir að Seðlabankinn og álíka stofnanir þurfi heimildir til upplýsingasöfnunar þá held ég samt sem áður að við verðum alltaf í þeirri stöðu að við þurfum að gefa þessum stofnunum miklu meiri upplýsingaheimildir og inngripsheimildir en við mundum vilja. Það sem mér finnst einkenna það hvernig við ætlum að lifa hérna í opnu hagkerfi með íslenska krónu er að við þurfum alltaf að vera að passa allt og skoða allt og getum ekki notið þess frelsis sem við viljum væntanlega. Ég hef áhyggjur af því hvernig við tökumst á við það þegar fram líða stundir.

Þegar kemur að langtímahugsun um íslenskt hagkerfi lendi ég alltaf á sama punktinum. Mér finnst ekkert gaman að segja það en það er íslenska krónan og hvernig við ætlum að vera hér í haftalausu umhverfi með íslenska krónu. Ég sé ekki hvernig við getum gert það án þess að vera alltaf, ekki endilega í beinum höftum en alltaf með seðlabanka sem þarf að vera að grandskoða eitthvað. En það sem ég skil ekki alveg enn þá, kannski skil ég það betur eftir að ég hef kynnt mér þetta frumvarp almennilega, er hvernig við ætlum að bregðast við því þegar spennan er orðin of mikil. Ætlum við að fara að takmarka getu bankanna til að þenjast út? Munu menn þá ekki aftur segja að við þurfum að halda áfram, lengra, því að framtíðin er svo björt, það er allt svo gaman, eins og menn gerðu og hafa alltaf tilhneigingu til þess að gera? Ég hef smá áhyggjur af því að við kunnum okkur ekki hóf. Þegar allt gengur vel vill fólk að hlutirnir haldi áfram að ganga vel. Ef eftirlitið og viðbrögðin einkennast af því að það þurfi að ganga aðeins minna vel þá er mikill þrýstingur á að hunsa þær viðvaranir.