145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nýleg lög sem við höfum samþykkt, t.d. um eiginfjárauka á fjármálafyrirtæki, eru dæmi um tól sem stjórnvöld hafa í vopnabúri sínu til þess að bregðast við. Þau geta t.d. gert fyrirtækjum á fjármálamarkaði erfiðara fyrir með að auka útlán ef aðstæður eru þannig í hagkerfinu að stjórnvöld telja það óheppilegt. En að öðru leyti þá er þetta þannig, held ég, að því miður verður þetta alltaf gríðarlega krefjandi verkefni, ekki bara með íslenskri krónu. Horfum til þeirra sem hafa ákveðið að starfa með opið frjálst markaðshagkerfi og gjaldmiðil sameiginlegan með stóru myntsvæði. Hvernig fór fyrir þeim þegar þeir misstu stjórn á lántökum og eyðslu? Hvernig gekk að vinda ofan af því í Grikklandi þegar menn höfðu farið fram úr sér í einkaneyslunni, skuldsetningu, bæði hið opinbera með óábyrgum stjórnmálum og einkageirinn, botnlausum lántökum og skuldsetningu sem engin innstæða var fyrir? Hvernig gekk að glíma við það verkefni að vinda ofan af þeirri stöðu eftir á? Þá var nú aldeilis hrikalegt að hafa gefið frá sér möguleikann á því að deila byrðunum jafnt með því að fella gengi gjaldmiðilsins. En það á hins vegar aldrei að vera, eins og oft er bent á í umræðum um þetta, auðveld flóttaleið fyrir stjórnvöld að grípa til að fella alltaf gengið. Það er auðvitað ekki í því samhengi sem ég nefni þetta.

Mín niðurstaða er einfaldlega sú að það sé best, þrátt fyrir alla gallana sem hv. þingmaður nefnir, að við séum með okkar eigin gjaldmiðil en við þurfum að halda áfram að byggja undir stöðugleika og leiða í lög og byggja undir sameiginlegan skilning hér milli stjórnvalda, vinnumarkaðar, (Forseti hringir.) ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir sem hjálpa til við að viðhalda þeim stöðugleika.