145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:55]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef það stundum á tilfinningunni, þegar maður hlustar á umræðuna um þetta ágæta frumvarp, sem ég tel vera mikið hagsmunamál fyrir þjóðina, að sumum sé hálfpartinn í nöp við það, þ.e sumum þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Það sem furðulegra er að það virðist helst vera hjá þeim sem eru hvað æstastir að ganga inn í ESB þar sem frjálst flæði fjármagns er algjör forsenda.

Þegar menn snúa umræðu um svona mikilvægt mál eins og afnám hafta upp í það að verið sé að gæta sérstaklega hagsmuna þeirra ríku, þeirra efnameiri, og að þetta skipti almenning engu máli, þá er manni svolítið brugðið. Tekin eru dæmi um það að nú geti þeir ríku keypt fasteignir í útlöndum. Tvær þjóðir í landinu. Þessi umræða kemur upp í þessu máli. Það kemur mér svolítið á óvart.

Þetta er risastórt hagsmunamál fyrir íslenska þjóð. Það eru almannahagsmunir sem hér eru undir. Það eru almannahagsmunir að hinir stóru, miklu lífeyrissjóðir, sem eru nú í eigu almennings, þurfi ekki að búa við höft. Það er gífurlega mikilvægt fyrir atvinnulífið að það geti þróast með eðlilegum hætti, geti orðið fjölbreyttara, gefið fleiri tækifæri fyrir ungt fólk o.s.frv. Nei, þá skulu sumir snúa umræðunni upp í það að ríkisbubbar geti keypt fasteignir á 100 milljónir úti á Spáni. Þetta finnst mér frekar dapurleg umræða. Þannig hefur hún verið mikið á samfélagsmiðlunum hjá helstu stuðningsmönnum stjórnarandstöðunnar. Örlar á þessu aðeins hér í umræðunni. En ég held að flestir sjái í gegnum þetta. Þetta er almannahagsmunamál, þetta er mikilvægt mál, herra forseti. Ég held að við eigum öll að leggja kraft í að ljúka þessu máli því að þetta er sennilega mesta hagsmunamál sem nú er fyrir þinginu. Takk fyrir.