145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

Umhverfisstofnun.

674. mál
[12:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Lög um Umhverfisstofnun eru hér á einblöðungum eins og þau líta út og hafa verið síðan 2002 en við erum núna að setja fram frumvarp og skýra þetta mun betur sem hefur mikið gildi til upplýsinga fyrir almenning sem og stjórnsýsluna. Eiginlega má segja að það sem er að gerast hér sé bylting fremur en lagfæring. Þetta er bylting á framsetningu á hlutverki Umhverfisstofnunar.

Varðandi spurningu hv. þingmanns er verið að skoða í stofnuninni og í samvinnu við ráðuneytið lög um Umhverfisstofnun og verið að skerpa á þeim. Það var ákveðið að þessi hreingerning út af tilmælum frá Ríkisendurskoðun væri sérstök og að við værum ekki núna að breyta efnislega heldur tilgreina inn í lögin ýmislegt sem kemur fram í sérlögum eins og getið var í minni framsögu. Þetta er mun aðgengilegra, held ég, fyrir alla að koma að.