145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

fjölskyldustefna 2017–2021.

813. mál
[12:31]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir yfirferð sína á þessari stefnu. Það sem mig langaði að benda aðeins á er liður F.9. þar sem fjallað er um úrræði fyrir börn sem alast upp við áfengis- og vímuefnavanda. Þegar ég sat í Norðurlandaráði var gerð áætlun til þess að aðstoða fullorðið fólk sem er að kljást við afleiðingar síðar á lífsleiðinni, fólk sem hafði alist upp á heimili þar sem áfengi og vímuefni voru höfð um hönd og einnig ofbeldi hvers konar. Þessi áætlun var mjög viðamikil en nýlega hefur orðið mikil vakning í þessum málum þar sem ofbeldi hefur verið þaggað niður á heimilum og einnig vímuefnavandi. Ég held að það sé mjög gott fyrir Ísland að horfa til þeirrar áætlunar sem þar var gerð.

Í lið F.8., um ofbeldi á heimilum barna, kemur fram að það leikur enginn vafi á því að heimilisofbeldi er til staðar hér á landi en við megum alls ekki gleyma andlega ofbeldinu, þ.e. þeirri niðurlægingu og niðrandi ummælum og öðru sem viðgengist getur á heimilum og kemur oft illa niður á ungum börnum sem skilja ekki af hverju aðstæður heima fyrir eru svona. Ofbeldið sem er í gangi á einhverju heimili þarf ekki alltaf að vera líkamlegt og sjást utan á börnum. Ég er mjög ánægð með að minnst skuli vera á verkefni lögreglustjórans á Suðurnesjum. Ég er eiginlega hætt að líta á það sem tilraunaverkefni þar sem það er komið mjög langt á veg núna. Þar er kallaður til fulltrúi Barnaverndar í hvert skipti sem grunur leikur á um ofbeldi eða þegar lögregla er kölluð út á heimili þar sem ofbeldi er til staðar, þ.e. að sleppa ekki takinu á þessu. Ég veit að svipað átak hefur verið í gangi á Grænlandi og hefur virkað mjög vel. Þar er líka eftirfylgni. Þegar lögregla hefur verið kölluð á heimili er komið í frekari heimsóknir, rætt við börnin, rætt við foreldrana, af hverju þetta hafi gerst. Það hefur fengið fólk til að átta sig á því hvað það hefur verið að gera með börnin á heimilinu.

Einn mikilvægasti liðurinn, að mér finnst, er fjárhagslegur stuðningur til foreldra fatlaðra og langveikra barna. Margir foreldrar hafa sagt að þegar barn þeirra fæðist með ákveðna fötlun þurfi þeir oft að setja líf sitt á smá bið, eftir því hversu alvarleg fötlunin er að sjálfsögðu. En hérna er talað um að gera þeim kleift að sækja vinnu eða nám þótt þeir þiggi umönnunargreiðslur. Umboðsmaður barna hefur líka bent á að þegar um er að ræða fötluð börn sem búa á tveimur heimilum geti það takmarkað rétt barna til að umgangast báða foreldra. Það getur verið erfitt að flytja umönnunarbúnað og jafnvel barnið sjálft á milli staða. Kannski er aðgengi ekki jafn gott á báðum stöðum. Mér finnst að það þurfi að koma til móts við þá foreldra sem vilja bæta aðstöðuna til að geta átt í frekari samskiptum við börn sín en fjárhagurinn leyfir það kannski ekki.

Svo er það þátttaka í skipulögðu frístundastarfi utan skólatíma, sem er liður D.1. Það sem ég rakst á þegar ég kom hingað til Reykjavíkur í framhaldsskóla var að aðgangurinn að frístundastarfi á höfuðborgarsvæðinu er ekki mjög opinn börnum á aldrinum 16–18 ára, þ.e. þeim börnum sem flytja utan af landi til Reykjavíkur. Nú veit ég ekki hvort þetta er svona í öðrum sveitarfélögum líka eða hvort það hafi batnað síðan þá en tel mjög mikilvægt að við höldum utan um börn sem standa á þeim miklu tímamótum að vera að flytja að heiman. Það er margt að breytast í lífi þeirra. Ef þau hafa verið í ákveðnu frístundastarfi í heimabyggð og vilja halda því áfram þegar þau fara í skóla annars staðar þarf að passa upp á öruggan aðgang fyrir þau.

Það er minnst hér á börn af erlendum uppruna í frístundastarfi. Það getur margt verið fjölskyldu þeirra mjög framandi, t.d. keppnisferðalög. Einnig það að æfingar séu á kvöldin. Það hefur verið talað um að það sé svolítið framandi fyrir þeim að senda barnið út á kvöldin. Svo veit ég líka um vanda þar sem börn koma hingað og fá ekki kennitölu strax og fá þess vegna ekki að keppa í íþróttunum. Þetta hefur gerst, alla vega að mér vitandi, í fótbolta og við nánari eftirgrennslan hefur komið í ljós að það er núna verið að ræða þetta á vettvangi m.a. FIFA og fleiri félaga. En ég held að við gætum orðið ein af þjóðunum til þess að taka framfaraskref í því að gæta þess að þau börn sem koma hingað og eru ekki strax komin með íslenska kennitölu fái samt aðgang að ákveðnu frístundastarfi og fái að keppa með jafnöldrum sínum, liðsfélögum sínum og vinum. En allt í allt get ég ekki annað séð en að þetta sé mjög góð áætlun þar sem er farið vel inn á þá eftirfylgni sem á að veita.

Í lið C.4. er mál sem er mér mjög hugleikið, þ.e. aðgerðaáætlanir gegn einelti og fagráð eineltismála. Ég held að þessi málaflokkur hafi því miður verið svolítið olnbogabarn undanfarið hjá okkur. Við höfum kannski ekki einbeitt okkur nægilega að honum. Við fáum fréttir af allt of ungum börnum sem eru lögð í einelti og finnst þau ekki geta tekist á við lífið eins og það blasir við þeim þar sem þau þurfa að kljást við þetta á hverjum degi. Ég tel þetta vera orðið algert þjóðþrifamál fyrir okkur, eitt af þeim málum sem við eigum að horfa til þegar við tölum um geðheilbrigði og vellíðan barna, það örugga umhverfi sem við eigum að veita þeim heima fyrir, í skóla, í frístundastarfi og annars staðar. Ég vonast til þess að þau fagráð sem hefur verið komið á fót fyrir grunn- og framhaldsskóla fari að skila einhverri vinnu og mælanlegum árangri og bráðlega verði líka komið á fagráði fyrir leikskóla. Það er samt alveg ótrúlegt að sjá börn í leikskólum. Þau gera oft engan greinarmun á því hvort vinur þeirra er af erlendu bergi brotinn eða í hjólastól eða hvað annað. Ég tel alla vega að við þurfum að leggja megináherslu á grunn- og framhaldsskóla þar sem ýmsar hræringar aðrar geta spilað inn í líðan barnanna.

Hvað varðar fræðslu fyrir börn um áfengis- og vímuefnamál þá er margt gert vel á þessu stigi. Það er komið inn í grunnskóla og framhaldsskóla og rætt við börnin. En það sem við höfum talað um á Alþingi um að leyfa áfengi í matvöruverslunum, gefa markaðinn frjálsari, finnst mér stangast á það, sem stefna sem kemur frá Alþingi Íslendinga, ef við ætlum að hleypa áfenginu inn í verslanir og á sama tíma tala um góðan árangur í forvörnum og stjórnun á áfengisvandamálum á Íslandi.

Svo er það netnotkunin. Ég vil úr þessum ræðustól hvetja foreldra til að kynna sér foreldravarnir. Það er rosalega oft sem maður heyrir foreldra tala um að börn hafi verið heima hjá vinum eða jafnvel í sinni eigin tölvu á eigin heimili þar sem þau hafa farið inn á síður sem jafnvel hafa sprottið upp sem sprettigluggar af öðrum leikjasíðum og eru óviðeigandi. Foreldrarnir geta mjög vel stjórnað þessu ef þeir hafa áhuga og geta kynnt sér málið mjög vel til þess að hjálpa, því að skólinn er ekki eini staðurinn þar sem börn komast í tölvur. Skólinn er ekki eini staðurinn sem á að taka á þessu. Það er gott að hafa foreldrana með í því.

Svo er það fræðslan um kynheilbrigði og klám. Ég tel mjög mikilvægt að jafningjafræðsla sé líka höfð með í þeirri fræðslu því að ef börnum og ungmennum og unglingum er kennt að meta hvert annað á jafnréttisgrundvelli, líta á hvert annað sem sjálfstæðar manneskjur, kennt kynheilbrigði með jafningjafræðslunni, tel ég að við náum góðum árangri í því að draga úr áreitisvanda og því kynferðislega áreiti sem oft verður til af misskilningi, (Forseti hringir.) bara vegna vanþekkingar.