145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

fjölskyldustefna 2017–2021.

813. mál
[12:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Það verður áhugavert að fylgjast með umfjöllun velferðarnefndar um þetta mikla og mikilvæga mál. Það sem ég vildi að lokum nefna er að í þeirri úttekt hjá UNICEF þar sem skoðuð var barnafátækt á Íslandi var eitt af því sem niðurstöðurnar sýndu svo gjörlega þegar menn fóru að grafa sig niður í tölurnar og átta sig á því hvaða börn það eru sem hafa það verst hvað það skiptir miklu máli að jafna stuðninginn gagnvart fjölskyldum óháð stöðu að öðru leyti, að horfa á efnahagslega stöðu þeirra. Það var mjög sláandi að sjá að það væru börn foreldra þar sem jafnvel tveir foreldrar voru á heimilinu með lægstu tekjurnar á vinnumarkaðnum sem virtust líða mestan efnahagslegan skort. Það segir okkur að við þurfum verulega að huga að stuðningskerfum okkar, breyta, eins og ég hef bent á, umbúnaði barnabóta, horfa til hugmynda sem m.a. verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir um upptöku barnatrygginga og síðan að sá húsnæðisstuðningur sem við veitum sé, enn á ný, sambærilegur óháð því í hvaða búsetuformi fólk býr. Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu. Ég vil líka fá að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnu málsins, starfsmönnum ráðuneytisins, nefndarmönnum og ekki hvað síst formanni nefndarinnar sem mótaði fjölskyldustefnuna, Guðrúnu Valdimarsdóttur.