145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

frumvarp um breytingu á ellilífeyri.

[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þá er spurningin einföld: Styður fjármálaráðherra það að frumvarp sem miðar að einföldun á ellilífeyri og hækkun hans verði lagt fram í þinginu núna og gert að lögum í haust, þannig að ellilífeyrisþegar á Íslandi fái að sjá einfaldað almannatryggingakerfi, hærri bætur og minni skerðingar í samræmi við þær tillögur sem ríkisstjórnin sjálf hefur unnið að árum saman og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru ekki komnar fram í þinginu? Er fjármálaráðherra tilbúinn til þess að setja þá fjármuni sem hann þarf til að það frumvarp geti orðið að lögum? Mun hann styðja það og er það forgangsmál um afgreiðslu hér á þessu haustþingi? Meinar ríkisstjórnin eitthvað með því að hún vilji einfalda almannatryggingakerfið og bæta kjör aldraðra? Ætlar hún þá að koma með (Forseti hringir.) frumvarpið sem hún er sjálf búin að skrifa þar um og fá það afgreitt í gegnum þingið á haustþingi?