145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

frumvarp um breytingu á ellilífeyri.

[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu styð ég einföldun almannatryggingakerfisins sem er orðið stagbætt og illa skiljanlegt fyrir alla sem á það þurfa að treysta. Að sjálfsögðu styð ég þá vinnu heils hugar og hef gert alla tíð og við skipuðum okkar fulltrúa sem hefur tekið fullan þátt í vinnunni.

Það veldur mér hins vegar vissum áhyggjum að fylgjast með umræðu um málefni eldri borgara, öryrkja og almennt um þróun almannatryggingakerfisins vegna þess hvernig um þau mál er talað almennt. Ég vek athygli á því að í því frumvarpi sem legið hefur frammi í drögum í sumar er gert ráð fyrir að við munum þurfa að verja u.þ.b. 5 milljörðum til þess að hrinda þeim breytingum í framkvæmd. Ég spyr mig í ljósi umræðunnar hér í þingsal og víðar: Hversu margir munu upplifa mikla breytingu á réttindum sínum þegar við berum það saman við þær hækkanir sem urðu um síðustu áramót þegar við settum ekki 5 milljarða í kerfið, við settum 10 milljarða í kerfið um síðustu áramót og talað var um það eins og smáaura sem engu skiptu? (Forseti hringir.) Þess vegna hef ég áhyggjur af því að í reynd muni nægilega margir finna fyrir miklu (Forseti hringir.) betri stöðu með þeim breytingum sem þarna eiga við. Ég er ekki viss um að það sé rétt sem hv. þingmaður segir (Forseti hringir.) að verið sé að draga úr skerðingum í öllum tilvikum.