145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

framlög til lífeyrisgreiðslna í fjármálaáætlun.

[15:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en vil jafnframt spyrja, af því að hann talar hér um að við höfum nýtt svigrúmið og við höfum aukið svigrúmið: Hvenær er komið að því að svigrúm í ríkisbúskapnum sé notað í þágu elli- og örorkulífeyrisþega? Hvenær er komið að því ef það er ekki komið að því núna, ef ekki er komið að því í nýrri ríkisfjármálaáætlun hæstv. ráðherra? Hver er raunveruleg forgangsröðun ráðherrans? Það liggur fyrir að það var einstakt tækifæri við fjárlagagerðina í desember sl. til að skapa þverpólitíska sátt, mér liggur við að segja þjóðarsátt um raunverulegar kjarabætur fyrir þetta fólk. Það var verulegur samhljómur með þeim áherslum úti um allt samfélag. Hvar er forgangsröðunin ef hæstv. fjármálaráðherra telur að ekki hafi verið tækifæri til þess að gera betur við þetta fólk á þeim tímapunkti og inn í framtíðina?