145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

vinna ráðuneyta eftir fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er stundum haft á orði að það séu tvær þjóðir sem búi í þessu landi. Önnur sem er með allt sitt í sjóðum í útlöndum og svo við hin sem erum með allt okkar hérna innan lands. En manni finnst líka stundum eins og það séu tvær ríkisstjórnir í þessu landi og þær séu að keppast við það að láta sem þær viti ekki hvor af annarri. Þess vegna er full ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem annan verkstjóra þessara eiginlega tveggja ríkisstjórna sem eru í landinu þegar samþykkt hefur verið stefna til langs tíma, ríkisfjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun 2017–2021. Ég hef komið að vinnu í ráðuneyti og veit að á haustin eru menn að undirbúa framtíðina, árið sem kemur á eftir: Eftir hvaða áætlun er unnið í velferðarráðuneytinu? Er þá enginn undirbúningur sem miðar að þessu samstarfi og áætlanagerð ríkisstjórnarinnar þar í gangi? Er bara gamla stefnan þar eða hvernig eigum við að meta það þegar ríkisstjórnin stendur ekki öll að því að samþykkja svona mál? Eftir hverju er unnið þar?

Það er ósköp eðlilegt að annar tveggja verkstjóra ríkisstjórnarinnar sé spurður þessarar spurningar. Hvernig má það vera þegar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra heldur því fram að hann hafi á öllum stigum málsins flaggað fyrirvörum að málið kemur engu að síður inn í ríkisstjórnina, fer í atkvæðagreiðslu þar sem það er afgreitt með þessum losaralega hætti af hálfu ríkisstjórnarinnar? Hvað segir það okkur um vinnubrögðin? Er ekkert hlustað á það sem menn segja við ríkisstjórnarborðið? Eru sömu lausatökin og kæruleysið þegar kemur að afgreiðslu þessa máls og við höfum séð á öllum öðrum sviðum þessarar ríkisstjórnar?