145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

vinna ráðuneyta eftir fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að gera lítið úr því, finnst mér, að við höfum nú afgreitt héðan frá þinginu þessa ríkisfjármálaáætlun og ríkisfjármálastefnu. Það er allt rétt sem sagt var í þeirri umræðu að ríkisfjármálaáætlunin tekur breytingum á hverju ári og ný stefna fylgir nýrri ríkisstjórn, en það að þingið sé farið að vinna eftir þessu nýja verklagi skiptir í mínum huga sköpum varðandi framtíðina. Það er eflaust ekki þannig að þetta verði í fyrsta og eina skiptið sem einstakur ráðherra telur að hann hefði þurft að fá meira í sinn hlut, inn á sitt málefnasvið, til þess að ná þeim markmiðum sem viðkomandi ráðherra hefur sett sér, það finnst mér afar ólíklegt. En það er engu að síður þannig að það er samhengi í tillögunum eins og þeim er stillt fram. Það samhengi má sjóða niður í stuttu máli í þetta: Við erum að skapa svigrúm til þess að geta sett meira í innviði og velferðarmál. Menn geta bara lesið tölurnar. Ef menn lesa t.d. síðustu langtímaáætlun sem unnið var með á tímum fyrri ríkisstjórnar, sem skilað var haustið 2012, þá geta menn séð að á árinu 2016, á þessu ári, höfum við skapað u.þ.b. 25 milljarða svigrúm í lægri vaxtagjöldum en menn gerðu þá ráð fyrir að mundu falla á okkur á þessu ári og þá 25 milljarða erum við að setja út í velferðarmál, samgöngumál og annað. Við erum sammála um að við þurfum að gera betur en við getum ekki sagt við fólkið í landinu, sérstaklega ættum við ekki að gera það í aðdraganda kosninga, að þetta sé svo einfalt að það þurfi aðeins að taka ákvörðun um að verja tugum milljarða í viðbót á útgjaldahliðinni, vegna þess að þá erum við að fórna öðru meginmarkmiði (Forseti hringir.) vinnunnar allrar sem er að þessi vinnubrögð leiði til meiri stöðugleika í landinu.