145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

endurgreiðsla tannlæknakostnaðar til aldraðra.

[15:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það kom fram hér á dögunum að þrátt fyrir reglugerð frá árinu 2013 sem gerir ráð fyrir endurgreiðslu frá sjúkratryggingum vegna tannlæknakostnaðar til aldraðra og öryrkja virðist hún ekki skila sér í þeim mæli sem hún ætti að gera. Það kom fram að gjaldskrá, viðmiðunargjaldskrá, hefur ekki hækkað síðan 2004 og það hefur leitt af sér að endurgreiðsla til sjúklinga sem þurfa á tannlæknaþjónustu að halda hefur einungis verið brotabrot af raunupphæð og raunútgjöldum sjúklingsins. Þetta hefur m.a. annars leitt til þess að þeir sem eiga rétt á 100% endurgreiðslu fengu sem dæmi einungis 43%. Þeir sem áttu rétt á að fá 2/3 hluta kostnaðar endurgreidda fengu einungis 28% endurgreidd frá Sjúkratryggingastofnun og sá hópur sem átti að fá u.þ.b. helming endurgreiddan fékk einungis 19%.

Ég verð að fá að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig standi á þessu. Hvernig stendur á því að þessi reglugerð, að viðmiðunargjaldskráin hefur ekki verið uppfærð frá 2004? Það eru 12 ár síðan það var og við vitum öll að verðlagið hefur breyst alveg gífurlega. Þetta er einstaklega óheppilegt ástand og algjörlega óásættanlegt fyrir þá aldraða og öryrkja sem þurfa á mikilli tannlæknaþjónustu að halda og hjálp á því sviði. Það eru alltaf fleiri og fleiri aldraðir sem halda tönnunum sínum, sem er í sjálfu sér mjög gott, en þegar heilsan fer að bila og viðkomandi hættir að geta burstað almennilega í sér tennurnar eða fer á lyf sem geta valdið munnþurrki og tannbólgum þá hrannast vandamálin upp og það mjög hratt, bæði tannskemmdir og tannholdsbólgur. Það er því mjög slæmt að þessi hópur skuli ekki fá þá niðurgreiðslu sem hann á rétt á. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig á því stendur.