145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[15:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum nú bara við 1. umr. þannig að ég ætla ekki að vera neikvæður, en ég verð að viðurkenna að þegar ég las þetta mál fór ég að velta fyrir mér til hvers það væri nákvæmlega, hvaðan það kæmi. Það virkaði á mig í fljótu bragði eins og það sem einn listamaður kallaði skandinavískt skipulagt frelsi, þ.e. þegar hlutirnir, sem öðrum kosti eru frjálsir, eru settir í eitthvert box svo menn geti einhvern veginn meðhöndlað þá og farið eitthvað með þá. Eini tilgangurinn sem ég raunverulega sé, og kannski gæti hæstv. ráðherra útskýrt eitthvað fyrir mér í þeim efnum, er til þess að hægt sé að gera hluti eins og skattaívilnanir eða að setja þessi lög sem einhvers konar skilyrði fyrir einhverju sem önnur félög setja sér. Ég velti fyrir mér: Hvaða vandamál er verið að leysa? Hafa komið upp einhver tiltekin vandamál þar sem menn hafa hugsað með sér: Ah, nú væri gott að hafa þessi lög eða svona lög til að bregðast við því vandamáli. Ég skil vel að mönnum geti fundist þetta eftirsóknarvert til þess að framfylgja einhverjum hugmyndum sem þeir hafa. Persónulega þykir mér almennt það eitt og sér ekki vera endilega gott tilefni lagasetningar. Og nú hlýt ég að vera búinn með tímann minn. Ég læt staðar numið hér og vík að seinni spurningu minni í seinna andsvari.