145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég skilji hæstv. ráðherra og ágætt svar hennar. Eitt sem ég verð samt að segja eftir að hafa lesið frumvarpið: Ég átta mig ekki alveg enn þá nákvæmlega á skilgreiningum. Það er oft í tísku nú til dags að vera með skilgreiningarklausu í frumvörpum og lögum sem mér þykir mjög hentugt til að afmarka hvað tiltekin orð þýða. En skilningur minn á þessu er sá að lögin í heild sinni skilgreini hugtakið. Þegar átt er við þessa tegund félags sé átt við félag sem uppfyllir þessi lagalegu skilyrði. Ég rakst hins vegar ekki á einhverja nákvæma skilgreiningu. Því langar mig að spyrja hvort t.d. trúfélög eða félög sem eru skyld, trúar- eða lífsskoðunarfélög eða félög sem starfa í þeim anda, falli undir skilgreininguna. Ég spyr sérstaklega vegna þess að mér finnst alltaf svolítið skrýtið, ég tek dæmi frá Bandaríkjunum þar sem trúfélög eru skattfrjáls að einhverju leyti ef ekki öllu, og ég velti alltaf fyrir mér hvert hlutverk ríkisins sé í því að skilgreina hvað sé ívilnunarvert þegar kemur að starfsemi slíkra félaga. Ég tek sem dæmi ef maður ætlaði að búa til félag sem væri nýtt og skrýtið og kannski ekki eitthvað sem yfirvöld eru vön, segjum félag sem berst skipulega gegn áhrifum abrahamískra trúarbragða í samfélaginu, eitthvað sem ég held að hljóti að gerast, en kemur óhjákvæmilega spánskt fyrir sjónir yfirvalda, ekki verandi vön slíkri starfsemi. Slíkt félag mundi tvímælalaust segja að það væri að vinna að almannaheillum, það væri ekki að vinna í gróðaskyni. Þá velti ég fyrir mér hvort eðlilegt sé að ríkið sé að búa til einhverja umgjörð um slík félög til þess að tilgreina hvað sé ívilnunarhæft og hvað ekki. Ég velti fyrir mér skoðunum hæstv. ráðherra í þessu samhengi.