145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[15:54]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu er greinargerð, á blaðsíðu 17. Í umsögn um 1. gr. er tiltekið hvaða félagasamtök eða félög frumvarpið tekur til. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði, eða málefni sem svo nánar er skilgreint í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem íþrótta- og mannræktarfélög, styrktarfélög sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra er æskileg. Önnur félagaform geta verið æskileg séu fjármunir þegar fyrir hendi …“ o.s.frv.

Þetta á ekki við til að mynda um lífeyrissjóði eða stjórnmálaflokka eða eitthvað slíkt.

Varðandi trúfélögin verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki svarið, hvort sérstaklega hafi verið fjallað um það og beini því til nefndarinnar að skoða það og taka afstöðu til þeirra. Þetta eru fyrst og síðast þau félagasamtök sem hér eru um allt samfélagið sem eru að vinna að þjóðþrifamálum. Ástæða þess að þetta mál hefur tekið langan tíma er að það eru einmitt ýmsar spurningar sem menn hafa mismunandi skilning á og mismunandi skoðun á. Þess vegna taldi ég rétt, einmitt einnig til að ljúka þessari vinnu sem hófst fyrir hartnær sex árum, að gefa Alþingi kost á að fjalla um þetta, kalla eftir þessum ólíku sjónarmiðum og þá eftir atvikum afgreiða málið eins og það er lagt hér fram eða með breytingum eftir vinnu nefndarinnar. Ég hvet því nefndina til að fara vel yfir þessi atriði sem hv. þingmaður nefnir.