145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[15:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna því að þetta frumvarp er fram komið eftir nokkuð langa meðgöngu sem í sjálfu sér er alveg skiljanleg og skýranleg. Eins og þegar hefur komið fram í orðaskiptum hér eru þessi mál í sjálfu sér ekkert einföld viðfangs. Það hvarflar ekki að mér að halda því fram. Það breytir ekki hinu að ég held að veruleg þörf sé á því að skýra lagaumhverfið að þessu leyti. Ég held að sú leið sem hér er lagt upp með sé í aðalatriðum sú rétta, þ.e. að búa til viðmiðanir og skýran grundvöll fyrir samtök af þessum toga sem starfa í þágu almannaheilla, eru ekki í atvinnurekstri í ágóðaskyni, eru til dæmis ekki sjálfseignarstofnanir með atvinnurekstur eða annað slíkt. Ástæðan er sú að á umliðnum árum hefur oft verið spurt um það nákvæmlega hvaða stöðu svona aðili hafi eða eigi að hafa. Það getur komið upp í ýmsu samhengi. Hér er til dæmis nefnt það sem vissulega hefur verið einn drifhvatinn að því að samtök af þessu tagi hafa þrýst á um að staða þeirra væri skýrð, þ.e. að þau góðu verkefni sem þau eru að vinna að gætu réttlætt að tillit væri tekið til þess til dæmis í skattalegu tilliti. En þá þarf líka að liggja fyrir og vera einhver skilgreining og einhver afmörkun á því hver er bær til þess að njóta þeirra kjara eða ívilnunar og hver ekki.

Við skulum ekki gleyma því að um leið og það skref er stigið að setja lagaramma um félagasamtök til almannaheilla og kveðið á um hvaða skilyrði þau þurfi að uppfylla til að geta hlotið skráningu sem slík þá er búin til viðmiðun fyrir þá sem gera það ekki. Það er líka gott að geta haft einhverjar varnir gagnvart því að hinir og þessir reyni að skreyta sig með nafngiftum sem ekki eru endilega innstæður fyrir, og þarf nú ekki að fjölyrða um, vandamál sem menn hafa lent í sums staðar annars staðar í þeim efnum þar sem menn stofna alls konar meint góðgerðafélög, svokölluð, á yfirborðinu og nota þau jafnvel til að komast hjá skattgreiðslum eða standa í ýmsum æfingum. Að sjálfsögðu viljum við ekki að hin eiginlegu og mikilvægu almannaheillasamtök og -félög skaðist á nokkurn hátt af slíku. Það er því gott að skýra stöðu svona aðila. Það er vel þessarar viðleitni virði.

Það eru auðvitað ýmis álitamál í kringum þetta og hvarflar ekki að mér annað en að viðurkenna það. En hingað erum við þó komin. Hér er kominn, að því er mér sýnist, nokkuð vel vandaður lagarammi eða frumvarp til laga. Enda heilmikið samráð og heilmikið starf að baki sem kemur þá til kasta þingsins og væntanlega svo næsta þings sömuleiðis að halda áfram með. Ágætisáfangi í því er auðvitað að málið gangi til nefndar og verði sent út til umsagnar. Þetta er mál sem varðar mjög marga og ekki bara félög og þá sem starfa innan vébanda svona samtaka heldur eiga svo ótrúlega margir samskipti við svona aðila. Ríki og sveitarfélög að sjálfsögðu en einstaklingar og alls konar aðilar eru í miklum samskiptum við samtök sem mundu falla undir þetta. Hér eru samtök oftar en einu sinni nefnd, Landsbjörg, sem skiljanlegt er, sem eru nú kannski einhver allra mikilvægustu og dýrmætustu almannaheillasamtök sem við eigum. Enginn efast nú held ég um það eða dirfist að andmæla því að þar er á ferðinni starfsemi sem er gríðarlega veigamikill þáttur í að við getum búið sæmilega örugg í þessu landi. En þau eru mörg samtökin skammt undan sem gætu vel fallið undir þetta.

Af því að hér voru trúfélög nefnd — annars ætla ég ekki að fara að taka að mér að svara eitthvað sérstaklega fyrir álitamál í þessum efnum, það gerir hæstv. ráðherra — þá hef ég ekki áhyggjur af því, herra forseti. Sem betur fer er, held ég, orðið sæmilega um það búið annars staðar, þ.e. uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að félög fáist viðurkennd sem skráð trúfélög. Það er einhvers staðar annars staðar í lagasafninu eitthvað um það. Og þeir sem ætlast til þess að geta fengið ígildi sóknargjalda sinna félaga til sín verða að undirgangast býsna strangar reglur í þeim efnum. Ég hygg að ekki sé ástæða til að óttast að því verði blandað saman, enda held ég að það væri komið út í aðra sálma og nokkurt óefni ef það færi að rekast á.

Ég fagna þessu skrefi og lít til þess með bjartsýni að nú takist, í einhverjum einum til tveimur atrennum í viðbót, að ljúka þessu verkefni. Ég er sannfærður um að það er gott ef okkur tekst að setja skynsamlegan lagaramma um þetta og koma upp skrá um slík félög til að skýra stöðu þeirra og aðgreina þau þá frá ýmsu öðru sem ekki á að falla undir sama hatt.