145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svo stöddu að vera á móti þessu máli enda hef ég í sjálfu sér engar sérstakar ástæður til þess. En mér finnst það gefa tilefni til þess að ræða aðeins félög og hlutverk þeirra í samfélaginu, félagafrelsið og allt það. Ég átta mig algerlega á því að hér er ekki verið að binda hendur eins eða neins. Hér er um að ræða löggjöf þar sem sett er upp ákveðið skilgreint lagalegt umhverfi sem félög geta sjálfviljug mótað sig eftir, væntanlega til þess að fá einhvers konar stimpil sem mundi gera þeim kleift að fá ýmist skattaívilnanir eða annars konar ívilnanir frá öðrum félögum eða stofnunum eða hvernig sem það er. Það er eins með t.d. menntun. Það má hver sem er fara og kenna einhverjum öðrum tungumál en svo getur viðkomandi þurft vottun ef viðskiptavinurinn á að fá kennsluna niðurgreidda af stéttarfélagi eða eitthvað því um líkt.

Að sjálfsögðu er um valkvæmt skref að ræða. En mér finnst hins vegar alveg þess virði þegar Alþingi tekur sig til og býr til einhvern ramma og setur eitthvert fyrirbæri eins og félag í box, almannaheillafélög í þessu tilfelli, að nefna það að ríkið er afskaplega illa í stakk búið til þess að ákveða hvað telst til eðlilegra félaga eða hvað sé æskilegt félagsstarf. Þess vegna, þegar við setjum svona ramma sem getur verið góður og gagnlegur út af fyrir sig, verðum við að hafa í huga að við vitum ekki hvernig félagaform framtíðarinnar munu vera eða á hvaða forsendum félög kjósa að starfa.

Ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. ráðherra t.d. trúfélög eða lífsskoðunarfélög eða sambærileg félög. Nú vitum við öll hvað trú- og lífsskoðunarfélög eru og þau hafa verið skilgreind en ég nefndi hérna sérstaklega eina tegund af trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sem gæti komið upp og mundi tvímælalaust telja sig vera til almannaheilla, t.d. félag sem ætlaði að reyna að sporna gegn áhrifum abrahamískra trúarbragða í samfélaginu, neikvæðra áhrifa sem ég skal fullyrða að eru til staðar og munu halda áfram að vera til staðar vegna þess að það eru ekki frjáls félagasamtök sem eru búin að ákveða að abrahamísk trúarbrögð þvælist fyrir í samfélaginu og það þurfi að sporna gegn þeim í orði. Þá velti ég fyrir mér hvað ríkið mundi halda um það. Hvað mundu yfirvöld segja um það? Betri spurning er: Hvers vegna ætti manni ekki að vera nákvæmlega sama um hvað yfirvöldum finnst um það?

Það er ekki hlutverk yfirvalda að ákveða hvaða félagsstörf séu mikilvægari en önnur. En við gerum það hins vegar. Auðvitað er það samfélagsins að ákveða það í heild sinni og gæti ég haldið langa og lærða ræðu um lýðræði og hlutverk einstaklingsins og almennings í þeirri jöfnu allri saman en ég ætla að sleppa því að svo búnu. Ég vil bara vekja athygli á því að á bls. 17 í greinargerðinni eins og hæstv. ráðherra benti mér á áðan eru talin upp ákveðin dæmi um félög sem mundu vera skilgreind sem almannaheillafélög samkvæmt frumvarpinu. En það eru einungis dæmi, ekki tæmandi útlisting eða tæmandi skilgreining á hugtakinu. Og ég hygg að það væri málinu til bóta ef nefndin kæmi fram með skýra skilgreiningu eins og tíðkast víða í stærri lagabálkum nú til dags, það er hefð og venja sem mér þykir mjög góð og til sóma og við eigum að reyna að halda til haga þegar við getum, sérstaklega þegar við ræðum um hugtök sem virka kannski óskýr í fyrstu. Ég verð að segja fyrir sjálfan mig alla vega að hugtakið almannaheillafélag virkar á mig sem mjög óskýrt. Það gæti verið um að ræða íþróttafélag, það gæti líka verið um að ræða trúfélag. Kaþólska kirkjan gæti kallað sig almannaheillafélag, en mundi væntanlega ekki falla undir skilgreiningu þessara laga og með þeirri staðreynd tel ég mig hafa sannað punktinn.

Nóg um það. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu, bara að benda á að það er okkur hollt sem stjórnmálamönnum að gera okkur grein fyrir takmörkunum okkar í því að ákveða hvernig samfélagið eigi að virka, hvernig félagaform eigi að vera og hvað félagafrelsi feli í sér. Ég ítreka að ég átta mig algerlega á því að hér er ekki verið að brjóta á neinn hátt í bága við félagafrelsið og ekki verið að neyða nokkurn einstakling til þess að gera neitt gegn vilja sínum en hér er hins vegar verið að ramma hlutina inn og þegar við gerum það verðum við að bera virðingu fyrir okkar eigin vanmætti til að skilja félagaform og forsendur félagastarfs í framtíðinni.