145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta mál og getur hæstv. ráðherra treyst því að ef ég verð í þessum sal þegar það verður afgreitt þá verður það atkvæði með málinu, enda er það mjög þarft eins og ég ætla að koma stuttlega inn á á eftir.

Ég tek eftir því að í liðum A.2, A.3, A.4 og reyndar almennt þegar kemur að svona ívilnunum þá eru yfirleitt, ef ekki alltaf, einhvers konar þök á t.d. endurgreiðslu á virðisaukaskatti eða því um líku. Ég velti fyrir mér þegar kemur að þessum málaflokki hvort það sé nokkur ástæða til þess að hafa slík þök yfir höfuð. Mér þætti gaman að vita hvort það séu einhver rök sem ég kem ekki auga á hér og nú fyrir því að afnema ekki þessi þök, en ég geri fastlega ráð fyrir því að það séu einhver rök. Ég hefði gaman af því að heyra þau eða kannski ekki gaman, en það er alla vega mikilvægt að þau komi fram.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta vandamál sé þegar að miklu leyti komið úr böndunum og að við eigum eftir að lenda ansi illa í loftslagsbreytingum í framtíðinni. Þess vegna held ég að sé fullt tilefni til þess að gefa í upp að öllu því marki sem við mögulega getum. Hluti af vandanum er þegar til kominn og er óhjákvæmilegur, en ef við sjáum einhvers staðar færi á því að gera meira þá eigum við að gera það.

Ég læt þessa spurningu duga að sinni um það hvaða forsendur liggi að baki þessum takmörkunum og hvort það sé tilefni til þess að slaka meira á þeim.