145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:32]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir stuðningsyfirlýsinguna við þetta mál. Það er gott að eiga hauk í horni þegar kemur að afgreiðslu mála í þinginu.

Hvað varðar fyrirspurn þingmannsins þá eru rökin að baki þessum þökum væntanlega fyrst og síðast samkeppnisrök. Þarna er verið að taka ákveðna afstöðu með einni tegund ökutækja eða farartækja gegn annarri. Ég get hins vegar upplýst það hér og sagt sem mína skoðun að ég er mjög hugsi yfir þessu vegna þess að ef við ætlum að ná þessum markmiðum, ef við meinum eitthvað með því, þá er þetta sannarlega hindrun vegna þess að þessir bílar eru enn sem komið er dýrari en venjulegu bensín- og dísilbílarnir eða þau ökutæki sem nota jarðefnaeldsneyti.

Það er nefnd á vegum fjármálaráðherra sem er með öll gjaldtökumál vegna bifreiða, eldsneytis og fjármögnunar vegakerfis til skoðunar í heild sinni. Ég vænti þess að þetta verði tekið þar til meðferðar. Ég vísaði í framsöguræðu minni til fordæmis í Noregi. Þar er verið að taka mjög afgerandi skref til að flýta fyrir þeirri þróun sem við viljum sjá gerast með þessari stefnu, að flýta fyrir rafmagnsbílum og þeirri þróun. Þar er hreinlega verið að banna bifreiðar sem eru keyrðar áfram af jarðefnaeldsneyti eftir ákveðinn tíma. Norðmenn setja sér mjög metnaðarfull markmið og hafa fyrir nokkrum árum sett það markmið, sem hér er lagt til, að ívilnanirnar sem við erum alltaf að afgreiða á ári hverju (Forseti hringir.) í tekjufrumvörpum með frumvörpum séu settar til lengri tíma þannig að markaðurinn viti að hverju hann gangi.