145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og fagna sérstaklega því viðhorfi hæstv. ráðherra að það sé hugsanlega svigrúm til þess að ganga lengra. Ég skil rökin og mér þykja þau málefnaleg, en eins og margir aðrir þá hygg ég að úr því sem komið er þá verðum við að ganga lengra. Að ákveðnu leyti finnst mér að samkeppnissjónarmiðin verði bara að víkja fyrir hagsmunum dýrategundarinnar okkar og þó víðar væri leitað í dýraríkinu til þess að ráða við það vandamál sem loftslagsbreytingar eru. Þá velti ég líka fyrir mér hvort það séu einhverjar leiðir til þess að koma til móts við samkeppnissjónarmiðin þannig að aðilar sem stóla á þessa hefðbundnu orkugjafa, köllum þá það í bili, olíu, gas og kol og guð má vita hvað, eigi auðveldara með því að færa sig inn í umhverfisvænni iðnað. Ég velti því fyrir mér hvort hugsanlega sé hægt að koma til móts við það. Auðvitað er ekki markmiðið að skemma neitt heldur þvert á móti að bjarga, bjarga bara samfélaginu öllu frá því sem bjarga má út af loftslagsbreytingum sem að mínu mati eru óhjákvæmilegar á þessu stigi.

Ég er með aðra spurningu sem ætti kannski frekar að fara til hæstv. umhverfisráðherra, en mig langar samt að spyrja hæstv. ráðherra: Hafa viðbragðsáætlanir eitthvað komið til tals? Að mínu mati, eins og ég hef farið yfir nokkrum sinnum, er mikill skaði skeður nú þegar og ég fæ ekki betur séð en að loftslagið á jörðinni sé þegar komið á þann stað að það muni halda áfram að breytast jafnvel þótt við mundum hætta að nota alla olíu í dag. Það þýðir að mínu mati að við þurfum líka að vera viðbúin þeim breytingum sem munu koma. Ég velti fyrir mér hvar við séum stödd þar í pólitíkinni. Þó að þetta mál sé komið hingað og það sé frábært, þá hefði verið betra ef það hefði gerst fyrir 20, 30 árum. Þess vegna held ég að það sé aldrei of snemmt að byrja að ræða viðbrögð okkar við fyrirsjáanlegum hörmungum.