145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað síðari spurningu hv. þingmanns ræðir þá er ég sammála honum að henni er kannski betur beint til hæstv. umhverfisráðherra. Mér er ekki kunnugt um einhverjar slíkar viðbragðsáætlanir. Þó vil ég benda aftur á þá aðgerðaáætlun sem umhverfisráðherra fékk samþykkta fyrir Parísarfundinn í desember og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem ábyrgðarmanni ákveðins hluta þess var falin ábyrgð á tveimur verkefnum, þetta er hluti af því. Það getur hugsast að þar hafi verið einhver slík viðbragðsáætlun en ég vísa spurningunni til hæstv. umhverfisráðherra.

Hvernig koma megi til móts við þá sem flytja inn eða selja annars konar farartæki; ég held að það sé einmitt verkefnið sem við þurfum að fara í. Ég held líka að við séum á leiðinni í þá breytingu. Það sem við erum að segja hér og ég lýsti sem minni skoðun er að við þurfum að gera það hraðar og taka ákvarðanir eins og þær sem teknar voru og ég vísaði til fyrir 50 árum þegar hitaveituvæðingin var.

Fjármálaráðherra er að láta skoða allt þetta kerfi í heild sinni vegna þess að það er líka jafnvægisstigið sem þarf að feta. Ríkissjóður hefur miklar tekjur af olíugjaldi, bensíngjaldi, allri skattlagningu sem fer til vegagerðar og annað. Ef við tökum heilan gjaldstofn út úr því mengi þarf eitthvað að breytast í planinu öllu, svo ég sletti nú aðeins. Það er sjálfsagt að skoða (Forseti hringir.) þetta í heild sinni einmitt til að við getum sett okkur metnaðarfull (Forseti hringir.) markmið en að ríkið sé ekki að grípa inn og velja einhvern einn sem á að vera sigurvegari.