145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þetta mál. Ég er ekki búin að lesa það spjaldanna á milli en mér líst mjög vel á það og segi, eins og hér hefur verið sagt, að það er tími til kominn. Við megum þó ekki gleyma því að það hefur verið gripið til aðgerða með því að vera með ívilnanir fyrir það sem við köllum núna hreinorkubíla. Ég var að skrifa um nákvæmlega þetta í nefndaráliti um fjármálaáætlun. Ég eyddi töluverðum tíma í að reyna að finna út hvort ég ætti að nota nýorkubíll, vistorkubíll eða hvaða orð ég ætti að nota, endaði á að segja „bílar sem nota endurnýjanlega orkugjafa“. Ég hugsaði að það væri gott ef við fengjum bara eitt orð sem við gætum notað um þetta. Kannski er það komið hérna, hreinorkubíll.

Það sem skiptir mjög miklu máli er að það sé hvati. Við vorum t.d. að ræða í þinginu að í dag er í raun hvati til þess að fara með lífrænan úrgang úr verslunum og urða. Það er ódýrara en að fara með lífræna úrganginn í jarðgerðarstöð og fá moltu. Það er náttúrlega algjörlega út í hött. Ívilnanirnar skipta mjög miklu máli. Ég held að hlutfall hreinorkubíla af bílaflotanum sé 1%, ekki meira en það, og það er svo ótrúlega lítið. Ráðherra hefur kannski betri upplýsingar, ég var að reyna að leita að upplýsingum um þetta. Við þurfum að bæta verulega í áður en við förum að taka einhvern gjaldstofn, en ég skil hvað ráðherrann er að fara með því. Auðvitað fáum við skatta í gegnum olíugjaldið og bensíngjaldið.

Ég vil ítreka það og held að ráðherra taki undir með mér að mér finnst að maður megi vera svolítið agressífur í að búa til jákvæða hvata þannig að umhverfisvænni kosturinn sé alltaf ódýrari. Spurningin er hvort þetta gangi nógu langt. Í dag er lífdísill dýrari en olía. Það er sem sagt dýrara fyrir t.d. skip sem vilja nota umhverfisvænt eldsneyti. Það er ódýrara fyrir þau að kaupa bara olíu eins og staðan er í dag. Mér finnst við þurfa að hraða þróuninni (Forseti hringir.) og vera svolítið agressíf í því að búta til hvata sem gagnast umhverfinu.