145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:46]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi síðasta atriðið þá segir einmitt á bls. 5 í lið C.1 að gefin verði út samgöngustefna fyrir Stjórnarráðið og undirstofnanir. Markmiðið er að 10% allra bíla í eigu opinberra aðila verði vistvæn fyrir árið 2020. Svo má alltaf spyrja sig: Er þetta nógu langt gengið? Er þetta of langt gengið eða hvað?

Varðandi innviðauppbygginguna þá er hún algjör forsenda. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið, og það var partur af loftslagsáætluninni, að setja 67 milljónir á ári til hennar í þrjú ár. Við höfum kosið að fara þá leið að auglýsa þessa styrki lausa og erum með það í ferli í ráðuneytinu, eins og ég sagði áðan, til þess að kalla eftir bestu tækni, bestu hugmyndum sem markaðurinn hefur yfir að ráða. Ég tel að þarna séu gríðarlegt tækifæri til að mynda fyrir nýsköpun og hef séð í mínu starfi ótrúlegar hugmyndir sem eru að gerjast út um allt.

En það er líka þannig að ríkið á ekki að vera að byggja hleðslustöðvar út um allt land frekar en að það á að byggja bensínstöðvar. Einkaaðilar verða líka að koma inn í þetta og þá er forsendan fyrir því að þetta borgi sig sú að það sé nógu mikill massi af bílum. Ég vil sjá ríkisstjórn Íslands alla á rafbílum — ég má nú kannski ekki taka afstöðu með einni tækni fremur en annarri, en mér finnst það liggja beint við. Það er hugmynd sem ég hef talað fyrir á ýmsum stöðum. Ég er sjálf á bensínbíl, sem ráðherrabíl, sem er tíu ára gamall, eyðir miklu og mengar mikið. Eina krafan sem ég hef gert þegar verið er að ræða um það er að næsti bíll verði vistvænn. Ég veit ekki einu sinni hvar ég er í röðinni, það er einhvers staðar annars staðar, en það er önnur saga.

Auðvitað á ríkið og ríkisstofnanir að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er hvatt til þess hér. Við eigum öll að taka það (Forseti hringir.) til okkar vegna þess að dropinn holar steininn. En við látum það ekki vera það eina sem gerist. Við þurfum að (Forseti hringir.) koma hvötunum af stað og keyra þetta í gang.