145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað heyra meira af þessu ef ég á segja alveg eins og er, kannski kynni ég mér það sem hæstv. ráðherra talaði um betur eftir á.

En það er einmitt málið að við höfum kannski tilhneigingu til að ætla það að öflin sem eru þegar til staðar hafi sjálfkrafa einhverja hagsmuni af því að búa til nýja hluti, sem er ekki endilega tilfellið vegna þess að stórar stofnanir eða stórar samsteypur hafa tilhneigingu til þess að vilja vera í því sem þær þekkja. Alveg eins og við hér á Alþingi, við viljum vita hvernig þingsköpin virka, þess vegna eru þau alltaf svolítið íhaldssöm, eðlilega, vegna þess að allir þurfa að skilja hvernig þau virka. Það er sami vandi í þessu tilfelli að mínu mati, að samsteypur eða jafnvel í heilum iðnaði, þar vilja menn vinna í umhverfi sem þeir skilja. Ný hugsun krefst þess oft að fólk hugsi eitthvað upp á nýjan hátt. Þá er oft mikið um einhvers konar togstreitu.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra eða alla vega þann tón sem hún sló. Það eru alveg góðir hlutir að gerast líka. Það er einnig svo mikilvægt, og þrátt fyrir dómsdagsræðu sem ég gæti haldið hér um loftslagsbreytingar þá eru samt góðir hlutir að gerast. Við þurfum að hafa vit á því að festast ekki í dómsdagsspám og ekki bara í því neikvæða heldur líta líka á það sem er jákvætt vegna þess að ef við þekkjum ekki muninn þarna á getum við auðvitað aldrei tekið réttar ákvarðanir. En ég hygg nú að við getum það. Við þurfum að vera framsýn og sérstaklega þegar kemur að stjórnmálunum hygg ég, þá þurfum við alltaf með tímanum að vera betur og betur undirbúin undir það að bregðast við nýjum fréttum því að heimurinn hreyfist hraðar, ekki bara þegar kemur að loftslagsbreytingum heldur þegar kemur að upplýsingatækni eða tækni almennt. En pólitíkin er alltaf svolítið hægari. Ég óttast því svolítið að við getum ekki brugðist nógu vel við. En að öðru leyti get ég tekið undir það sem hæstv. ráðherra fór hér inn á og hlakka til og mundi vilja heyra reyndar meira um það sem hæstv. ráðherra var að fjalla um og hyggst reyndar lesa mér til um það eftir þennan fund.