145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp aðallega formsins vegna, þar sem ég er formlega að svara andsvari. En ég held að það sé þá ágætt að slá þann botn í þetta ágæta samtal við hæstv. ráðherra að við á Íslandi getum alveg verið til fyrirmyndar og við erum til fyrirmyndar á margan hátt og á fleiri sviðum en þessum. Ég held að ef við mundum setja okkur það markmið mundum við ná því með glæsibrag. Ég hygg að við munum gera það. Spurningin er hvort við gerum það í tæka tíð.

Ég held að það liggi sérstaklega vel við höggi hér á Íslandi vegna þess að við erum fámenn þjóð, sem er yfirleitt til trafala en á ákveðinn hátt er það jákvætt að því leyti að hérna geta breytingar átt sér stað mjög hratt, við erum mjög fljót að taka upp breytingar. Það er auðvelt að gera eitthvað fyrir næstum því alla. Það er auðveldara hér en segjum í um 80 milljóna manna samfélagi, t.d. Þýskalandi eða einhverjum slíkum samfélögum. Það er alveg tilefni til þess að líta á hvað hægt er að gera og ganga lengra í þeim efnum. En ég fagna því líka þótt umræðan sé nú ekki jafn hávær og ég mundi vilja hafa hana þá virðist vera samhljómur hjá öllum þegar hún á sér stað, það virðast allir vilja að við verðum til fyrirmyndar í þessu, allir vilja losna við þetta vandamál. Það virðast meira að segja flestir, a.m.k. allir sem hafa talað hér í dag, vilja ganga lengra en við erum að gera. Það segir auðvitað að við erum kannski ekki að ganga jafn langt og við ættum að gera, en það segir okkur líka að það er tækifæri til þess og raunverulegur möguleiki á.