145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

vátryggingastarfsemi.

396. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Hér er um að ræða heildstætt frumvarp um vátryggingastarfsemi og tekið skal fram að hér er ekki um að ræða frumvarp til laga um vátryggingasamninga.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis, fulltrúa Fjármálaeftirlits, fulltrúa Samtaka fjármálafyrirtækja, fulltrúa Lögmannafélags Íslands, Seðlabanka Íslands, Neytendastofu, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands.

Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Neytendastofu, Fjármálaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands. Þær umsagnir liggja fyrir í umfjöllun málsins og ég ætla þá að fjalla almennt um efnistök frumvarpsins.

Frumvarpið er byggt á tilskipun 2009/138/EB (Solvency II) ásamt breytingum á henni með tilskipun 2014/51/ESB (Omnibus II). Í henni eru teknar saman í eina tilskipun helstu tilskipanir um skaða- og líftryggingar. Markmið Solvency II-tilskipunarinnar er að samræma lagaumhverfi vátryggingafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu, bæta neytendavernd og tryggja fjárhagslegan stöðugleika. Uppsetning frumvarpsins fylgir að mestu leyti uppsetningu tilskipunarinnar.

Meginmarkmið frumvarpsins er að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra en einnig er því ætlað að tryggja fjárhagslegan stöðugleika á fjármálamarkaði og sanngjarnar og stöðugar markaðsaðstæður með því að gera auknar kröfur til gjaldþols vátryggingafélaga. Til að draga úr líkum á því að vátryggingafélag geti ekki staðið við greiðslu tjóna eða verði gjaldþrota eru gerðar auknar kröfur til stjórnarhátta, áhættustýringar og upplýsingagjafar auk þess sem gjaldþolskröfur eru áhættumiðaðar. Þá er með auknum heimildum og kröfum til Fjármálaeftirlitsins reynt að tryggja að fylgst verði með þeim áhættuþáttum sem hafa áhrif á starfsemi vátryggingafélaga og stöðugleika á markaðnum.

Virðulegi forseti. Nefndinni bárust sem fyrr segir nokkrar athugasemdir um málið þar sem fram koma ýmis sjónarmið sem nefndin telur rétt að fjalla um. Í nefndarálitinu eru umsagnir um einstaka greinar. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þær umsagnir, þær liggja allar fyrir í nefndarálitinu sjálfu. Þær eru til skýringa. Þar er vísað til einstakra greina frumvarpsins.

En ég vil að lokum vísa til þess að tveir umsagnaraðilar bentu á að láðst hefði að innleiða ákvæði 9. og 10. mgr. 308. gr. b tilskipunarinnar þar sem vátryggingafélögum er m.a. heimilað að telja til gjaldþolsþáttar tvo kjarnagjaldþolsliði að því gefnu að liðurinn hafi annars vegar verið gefinn út fyrir gildistöku nýrra laga og hins vegar verið tækur til að mæta a.m.k. 25% að lágmarksgjaldþoli samkvæmt eldri lögum. Nefndin leggur til að við ákvæði til bráðabirgða verði bætt sólarlagsákvæðum þar að lútandi.

Til viðbótar við framangreindar breytingar og þær breytingartillögur sem lagðar eru til í þskj. 1515 leggur nefndin til nokkrar tillögur sem snúa að lagfæringum á málfari og orðavali eða augljóslega röngum tilvísunum. Þá voru lagðar til breytingar til að skýra nokkur ákvæði betur. Þær breytingartillögur þarfnast ekki frekari skýringa. Jafnframt er lagt til að gildistökuákvæðinu verið breytt.

Virðulegi forseti. Í þessu máli liggur fyrir þskj. 1515 sem er breytingartillaga í 38 töluliðum og nokkrum stafliðum þar fyrir utan. Ég tel að með því frumvarpi sem hér hefur litið dagsins ljós og nefndin hefur fjallað um sé neytendavernd að nokkru bætt. Tilgangur vátryggingafélaga er að tryggja viðskiptavini fyrir hugsanlegum tjónum sem kunna að verða. Ég tel að það sé gert með þessu frumvarpi.

Nefndin var þó nokkuð sammála um þetta mál, alla vega náðust þokkalegar sættir.

Á fundi nefndarinnar þann 17. ágúst sl. var þetta nefndarálit samþykkt og á það rita eftirtaldir hv. þingmenn nöfn sín: Frosti Sigurjónsson, formaður, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður, Brynjar Níelsson, Sigríður Á. Andersen, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Katrín Jakobsdóttir sem er á álitinu með fyrirvara.

Að auki skal þess getið að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Í ljósi framangreindra ákvæða sem lagðar eru til í breytingartillögu þá leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með meðfylgjandi breytingartillögum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta viðamikla mál hafi fengið góða umfjöllun og vona að það verði til gagns og hagsbóta fyrir neytendur í landinu. Ég hef lokið máli mínu.